Erlent

Sænska ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt útgönguspám

Heimir Már Pétursson skrifar

Kjörstöðum í Svíþjóð var lokað fyrir hálftíma og virðist sænska ríkisstjórnin ætla að halda velli samkvæmt útgönguspá. Samkvæmt henni fær kosningabandalag mið- og hægri flokka 49,1 prósent atkvæða og bandalag vinstriflokka 45,1 prósent. Sænskir demókratar fá menn á þing, með 4,6 prósent atkvæða.

Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra leiðir bandalag fjögurra mið- og hægriflokka í Svíþjóð sem útlit er fyrir að haldi meirihluta sínum á sænska þinginu í kosningum sem fram fara í landinu í dag. Hann var enda rólegheitin uppmáluð þegar hann gekk um miðborg Stokkhólms í dag og gaf kjósendum blóm.

Skattalækkanir stjórnar Reinfeldt's hafa mælst vel fyrir og almennt stendur efnhagur Svíþjóðar vel á sama tíma og fjölmargar þjóðir Evrópu berjast við samdrátt og mikinn halla á fjárlögum. Rauð-græna bandalaginu, sem er bandalag vinstriflokka og græningja undir forystu Monu Sahlin leiðtoga jafnaðarmanna, hefur ekki náð að heilla meirihluta kjósenda til sín. En Sahlin var þó vongóð þegar hún mætti á kjörstað í dag.

Síðust kannanir benda til að stjórnarflokkarnir fái 183 af 349 þingmönnum á sænska þinginu en rauð-grænabandalagið fái 66 þingmenn. Þá benda nýjustu kannanir til þess að nýjum flokki, Sænskum demókrötum, takist að komast yfir fjögurra prósenta múrinn sem þarf að kljúfa til að ná manni á þing.

Flokknum er nú spáð 5,9 prósenta fylgi og tuttugu og einum manni á þing. En flokkurinn berst aðallega gegn veru innflytjenda í Svíþjóð sem hann segir ógna sænska velferðarkerfinu. Um 14 prósent íbúa Svíþjóðar eru innflytjendur.

Ef bandalag Reinfeldts vinnur kosningarnar nú, yrði það í fyrsta skipti frá því á þriðja áratugnum sem leitoga mið- og hægriflokka tekst að vinna meirihluta á þingi eftir að hafa setið við völd í heilt kjörtímabil.

Yfir tvær milljónir manna kusu utan kjörstaðar og hafa utankjörfundaratkvæði aldrei verið fleiri. Ef hvorugu bandalaginu tekst að vinna hreinan meirihluta gætu þessi atkvæði ráðið úrslitum en þau verða ekki að fullu talin fyrr en á þriðjudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×