Viðskipti innlent

VBS var í vanda vegna lausafjárskorts

hróbjartur Jónatansson
Hann er formaður bráðabirgðastjórnar sem tók yfir VBS fjárfestingabanka.
hróbjartur Jónatansson Hann er formaður bráðabirgðastjórnar sem tók yfir VBS fjárfestingabanka.

„Það er tvennt í stöðunni þegar bankinn getur ekki staðið við skuldbindingar sínar: óska eftir greiðslustöðvun sem getur leitt til nauðasamninga eða fara í slitameðferð," segir Hróbjartur Jónatansson, formaður bráðabirgðastjórnar sem tók við VBS fjárfestingarbanka í fyrradag. Stjórnin er nú að skoða stöðu bankans, svo sem kanna möguleika á að stokka upp reksturinn.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að VBS glímir við fjárhagserfiðleika og gat ekki greitt af 26 milljarða króna láni undir lok síðasta árs.

Fjárhagsstaða VBS hefur verið þröng um nokkurt skeið og átti bankinn ekki nægt fé til að standa við skuldbindingar sínar. Heildarskuldir VBS nema um 39 milljörðum króna og skuldin við Seðlabankann er rúmlega 70 prósent þeirra.

Eftir því sem næst verður komist skýrist slæm staða bankans af því að bankinn neyddist til að ganga að veðum og taka lóðir og fasteignir upp í skuldir viðskiptavina eftir bankahrunið í hittifyrra.

Þessar eignir eru nú umfangsmiklar í safni bankans og erfitt að breyta þeim í handbært fé.

Ekki fengust upplýsingar um það í gær hvort Seðlabankinn breyti láninu til VBS í kröfu á hendur bankanum. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×