Erlent

Aldrei fleiri blaðamenn drepnir

Óli Tynes skrifar

Sjötíu blaðamenn voru drepnir vegna starfa sinna á síðasta ári og er það mesti fjöldi síðan byrjað var að skrá dauðsföll í stéttinni fyrir þrjátíu árum.

Í þessari háu tölu vegur þyngst að þrjátíu og einn blaðamaður féll í fjöldamorði á Filipseyjum í lok síðasta árs.

Mesti fjöldi þar áður var árið 2007 þegar sextíu og sjö blaðamenn voru drepnir. Fyrir utan þetta er vitað um eitthundrað og fimmtíu blaðamenn sem hafa verið fangelsaðir. Þar af eru sextíu í Íran.

Það vekur athygli að blaðamenn vefmiðla virðast sérstaklega undir högg að sækja. Yfir helmingur þeirra sem eru í fangelsi vinnur hjá vefmiðli.

Eins og venjulega er Kína ofarlega á lista þeirra landa sem ofsækja blaðamenn. Þar eru tuttugu og fjórir í fangelsi.

Þar á eftir koma lönd eins og Kúba, Eritrea og Burma. Á ráðstefnu um fjölmiðlun hjá Sameinuðu þjóðunum sögðu talsmenn samtaka um vernd blaðamanna og alþjóðlegur þrýstingur væri enn besta leiðin til þess að fá blaðamenn lausa úr fangelsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×