Erlent

Bardagasveitir enn til staðar í Írak

MYND/AFP

Fregnir af því að allar bardagasveitir bandaríska hersins séu farnar frá Írak, virðast ekki alfarið á rökum reistar.

Í síðustu viku var tilkynnt um brotthvarf allra bardagasveita hersins rúmum sjö árum eftir að innrásin hófst og Saddam Hussein var steypt af stóli. Enn eru þó tæplega fimmtíu þúsund bandarískir hermenn eftir í landinu, en þeir eiga ekki að taka þátt í bardögum heldur takmarkast hlutverk þeirra við að þjálfa írakska hermenn og lögreglumenn. Stærstur hluti þessara hermanna koma þó upphaflega úr bardagasveitum, sem aðeins hafa fengið nýtt nafn, að því er fram kemur á bandarísku vefsíðunni Army times.

Með þessu móti geta sveitirnar búist til bardaga gerist þess þörf þó svo hlutverk þeirra í landinu eigi að vera þjálfun og ráðgjöf. Samkvæmt samningi sem gerður var við írösku ríkisstjórnina er stefnan síðan tekin á að koma öllum bandarískum hermönnum úr landinu fyrir lok desember á næsta ári. Flestir voru bandarísku hermennirnir í Írak um 170 þúsund í lok ársins 2007, en í byrjun þessa árs hafði þeim fækkað í tæplega 100 þúsund. Önnur ríki hafa þegar kallað alla hermenn sína heim frá Írak.

Átökin í Írak hafa kostað um 4.400 bandaríska hermenn lífið. Óvíst er hve mörg mannslíf stríðið hefur kostað í heild, en lægstu tölur sem nefndar eru hafa verið í kringum 100 þúsund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×