Erlent

Spennan magnast á Kóreuskaga

Suður Kóreumenn lögðu mikið á sig til þess að ná skipinu upp af hafsbotni.
Suður Kóreumenn lögðu mikið á sig til þess að ná skipinu upp af hafsbotni.

Spennan magnast nú frá degi til dags á milli nágrannanna í Suður- og Norður Kóreu. Í gær fullyrtu stjórnvöld í Suður-Kóreu að tundurskeyti frá Norður-Kóreu hefði grandað einu herskipa þeirra í mars síðastliðinn.

Stjórnvöld í Seúl hafa hingað til ekki viljað saka Norður-Kóreu opinberlega um aðild að málinu en nú hafa rannsóknir alþjóðlegra sérfræðinga verið gerðar opinberar og segja þeir augljóst að um tundurskeyti hafi verið að ræða. Skipið var 1200 tonn að stærð með 108 manna áhöfn og fórust 46 sjóliðar.

Norður-kóresk stjórnvöld hafa brugðist ókvæða við þessum ásökunum og hóta nú að slíta vopnahléinu sem verið hefur í gildi á milli landanna, reyni nágrannarnir í suðri að hefna fyrir árásina.

Héðan í frá yrði litið á málið með þeim augum að þjóðirnar tvær séu í stríði, er haft eftir hátt settri nefnd í landinu sem ætlað var að stefna að friðsamlegri sameiningu ríkjanna tveggja. Forseti Suður Kóreu segir hins vegar að árásin jafnist á við stríðsyfirlýsingu og hét því í gær að grípa til aðgerða.

Margir óttast því að stríð geti brotist út á næstu dögum en Bandaríkjamenn eru með 30 þúsund hermenn staðsetta í Suður Kóreu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×