Viðskipti innlent

Hundruð tómra íbúða hamla vaxtalækkun

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Þeir sem hyggja á íbúðarkaup á næstu árum munu ekki njóta betri lánskjara hjá Íbúðalánasjóði vegna aukins kostnaðar sjóðsins. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka, sem gagnrýnir litla vaxtalækkun Íbúðalánasjóðs í fyrradag. Bankinn telur lægri vexti íbúðalána geta blásið lífi í botnfrosinn fasteignamarkað.

Íbúðalánasjóður lækkaði vexti um 0,05 prósent í 4,5 prósent á þriðjudag. Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að miðað við góð kjör í síðasta útboði sjóðsins hafi hann getað lækkað vexti niður í 4,25 prósent. Á móti hafi þurft að hækka vaxtaálag vegna aukins rekstrarkostnaðar og vanskilaáhættu um 0,2 prósent.

Guðmundur segir síðasta ár hafa verið sjóðnum erfitt og rekstrarkostnað hækkað mikið. Um nokkurra mánaða skeið hafi verið leitað leiða til að bæta fjárhagsstöðu hans án aðkomu ríkissjóðs. Í kjölfarið hafi vaxtaálag verið hækkað.

„Ef vextir í útboði íbúðabréfa hefðu ekki lækkað hefðum við þurft að hækka vextina," segir hann.

Guðmundur segir útilokað að segja til um hvenær vextir Íbúðalánasjóðs lækki enda stjórnist þeir af lánskjörum hverju sinni og fjármagnsþörf sjóðsins. Hann telur þó ósennilegt að vaxtaálag hækki frekar.

Aukinn kostnaður skrifast að hluta á fjölda fasteigna sem Íbúðalánasjóður á. Sjóðurinn á nú fjögur hundruð fasteignir víða um land og bætast hundrað við í næsta mánuði á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Guðmundur bendir á að í venjulegu árferði hafi Íbúðalánasjóður átt um fimmtíu til sextíu íbúðir og veltan verið ágæt. Nú sé algjört frost á markaðnum og íbúðirnar hreyfist ekki. Íbúðirnar eru flestar nýlegar og standa um þrjú hundruð þeirra auðar. Íbúðalánasjóður þarf að standa straum af rekstri þeirra.

Guðmundur segir ástæðu þess að Íbúðalánasjóður hafi þurft að taka yfir margar fasteignir á Austurlandi þá að þar hafi verið farið of geyst á sama tíma og áætlanir um byggðaþróun tengdar álversframkvæmdum á Reyðarfirði hafi ekki gengið eftir. Útilokað er að segja til um hversu lengi sjóðurinn þarf að eiga íbúðirnar fimm hundruð. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×