Viðskipti innlent

Vilhjálmur Egilsson telur botninum náð hjá Gildi

„Það er þungt að þurfa að lækka réttindin", segir Vilhjálmur Egilsson, formaður stjórnar Gildi lífeyrissjóðs. Vilhjálmur telur að botninum sé náð í afskriftum hjá lífeyrissjóðnum, sem ætlar að skerða lífeyrisréttindi um 7%.

Stjórn Gildis lífeyrissjóðs, þriðja stærsta lífeyrissjóðs landsins, leggur til að áunnin réttindi sjóðfélaga við síðustu áramót verði lækkuð um 7%. Lækkun á lífeyrisgreiðslum kemur til framkvæmda í tvennu lagi, 1. júní og 1.nóvember.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður stjórnar Gildis segir að það megi segja að lífeyrisgreiðslur fari nú aftur á sama stað og þær voru áður en uppgangstímabilið hófst árið 2006. Þá hafi Gildi hækkað réttindin. „Við erum að standa við það loforð að veita verðtryggðan lífeyri, áður hækkuðum við umfram verðtrygginguna og erum núna að taka það til baka og stöndum núna eftir með verðtryggðan lífeyri," sagði Vilhjálmur í samtali við fréttastofu í morgun.

En fóru lífeyrissjóðirnir ekki óvarlega í því að kaupa skuldabréf af bönkunum, Baugi og fleiri fyrirtækjum? „Jú það má segja að á þessum markaði hafi ríkt hjarðhegðun og Gildi er ekki undanskilinn í þeim efnum," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segist vona að ekki komi til frekari skerðingar en aldrei sé hægt að segja nákvæmlega til um það fyrirfram.

„Okkur þykir afar erfitt að þurfa að taka það til baka sem kannski var aldrei nein innistæða fyrir þegar upp er staðið, það er þungt að þurfa að lækka réttindi, en mér sýnist við vera komin niður á botninn í afskriftum hjá sjóðnum," segir Vilhjálmur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×