Viðskipti innlent

Senda reikninga og samþykkja þá líka

Tveir forsvarsmenn slitastjórna Spron og Frjálsa fjárfestingabankans senda lögfræðiverkefni tengdum Spron og Frjálsa sem þau ná ekki að sinna sjálf til félags í þeirra eigu og þrotabúin, sem þeir stýra, greiða fyrir.

Við sögðum frá því í gær að Hlynur Jónsson, formaður slitastjórna Spron og Frjálsa fjárfestingabankans væri jafnframt stjórnarformaður stærsta kröfuhafa Frjálsa.

Hlynur Jónsson var um tíma yfirlögfræðingur Fjármálaeftirlitsins og er nú meðeigandi á lögfræðistofunni Kvasir lögmenn. Annar meðeigandi hjá Kvasir lögmönnum er Hildur Sólveig Pétursdóttir, en hún situr í slitastjórn Spron og Frjálsa ásamt Hlyni.

Þau Hildur og Hlynur stofnuðu félag sem heitir Nýsúla í september 2009. Þar starfa þrír lögmenn, á þeirra ábyrgð. Félagið Nýsúla er til húsa hjá Kvasir lögmönnum.

Starfsmenn Nýsúlu sinna ýmsum lögfræðilegum verkefnum fyrir þrotabú Spron og Frjálsa fjárfestingabankans, gegn útseldu tímagjaldi - en algengt tímagjald fyrir slík störf er á bilinu átján til tuttugu og tvö þúsund krónur. Reikningurinn fyrir þá þjónustu er síðan sendur þrotabúunum og samþykktur af Hlyni Jónssyni, formanni slitastjórnanna beggja og eiganda félagsins sem sendir reikninginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×