Handbolti

Ólafur ætlar að spila áfram með landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Ólafur Stefánsson fagnar með hinum strákunum í leikslok í dag.
Ólafur Stefánsson fagnar með hinum strákunum í leikslok í dag. Mynd/afp
Ólafur Stefánsson er ekki hættur að spila með íslenska landsliðinu og mun áfram gefa kost á sér á meðan hann er í landsliðinu.

Þetta sagði hann í samtali við Vísi eftir leikinn gegn Póllandi á EM í handbolta í dag. Ísland vann þriggja marka sigur, 29-26, og tryggði sér þar með bronsverðlaunin á mótinu.

„Ég vil vera áfram hjá Gumma," sagði Ólafur. „Á meðan ég er í atvinnumennsku og get eitthvað."

„Ég er mjög ánægður að heyra það," skaut Guðmundur skyndilega inn í en hann var í viðtali hjá öðrum fjölmiðli.

„Já, á meðan ég get eitthvað," svaraði þá Ólafur.

„Já, já. Auðvitað," sagði Guðmundur.

„Ég verð ekki fúll ef þú velur mig ekki," bætti Ólafur við.

„Það er sannur heiður að fá að starfa með þér," sagði þá Guðmundur.

„Sömuleiðis, kall," svaraði þá Ólafur og brosti.

Og þá sneri hann sér aftur að blaðamanni.

„Á meðan ég er að skora og hjálpa til. Maður á ekki að vera valinn í liðið út á forna frægð. Þjálfarinn á að velja þá leikmenn sem eru að standa sig vel, eru í góði formi og eru besti eða næstbesti kostur í stöðunni."

„Á meðan hausinn er í lagi þá held ég að það verði þannig - á meðan ég er í atvinnumennsku," sagði Ólafur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×