Erlent

Ráðist á sumarbúðir barna á Gaza ströndinni

Óli Tynes skrifar
Frá Gaza ströndinni.
Frá Gaza ströndinni.

Tveir tugir grímuklæddra manna réðust í gær á sumarbúðir fyrir börn sem Sameinuðu þjóðirnar reka á Gaza ströndinni.

Búðirnar voru stórskemmdar. Þetta var önnur árásin á sumarbúðir á innan við mánuði.

Árásirnar voru í báðum tilfellum gerðar snemma að morgni áður en börnin komu í búðirnar. Kveikt var í leiktækjum og skorið með sveðjum á tjöld, hoppukastala, leikföng og sundlaugar úr plasti.

Helsti keppinautur Sameinuðu þjóðanna í rekstri sumarbúða á Gaza ströndinni eru Hamas samtökin,

Þingmaður Hamas barðist opinberlega gegn búðum Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári. Islamistar hafa sakað samtökin um að spilla palestinskri æsku.

Sumarbúðir Sameinuðu þjóðanna ná til um 250 þúsund barna. Þar eru kenndir leikir, íþróttir og einnig eru kennslustundir um mannréttindamál.

Sumarbúðir Hamas ná til um 100 þúsund barna. Þar eru einnig kenndar íþróttir svosem sund og hestamennska.

Auk þess eru börnunum kennd islömsk trúarbrögð og að marséra að hermannasið.

Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásinni á sumarbúðir Sameinuðu þjóðanna. Hamas samtökin hafa fordæmt hana og lofað rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×