Viðskipti innlent

Skuldabréfamarkaður bíður tíðinda af Icesavemálinu

Þróun á skuldabréfamarkaði í aðdraganda útboðs á ríkisbréfum s.l. föstudag var ríkissjóði býsna hagfelld. Ávöxtunarkrafa beggja ríkisbréfaflokkanna sem í boði voru á föstudag lækkaði verulega í síðustu viku, ekki síst vegna betri horfa á farsælli lausn Icesave-deilunnar. Leysist deilan fljótlega eykur það líkur á áframhaldandi lækkun stýrivaxta næsta kastið.

Greining Íslandsbanka segir þetta í Morgunkorni sínu og bætir við að hinsvegar hafi slegið nokkuð í bakseglin eftir tíðindi af dræmum undirtektum stjórnarandstöðu við gagntilboði Breta og Hollendinga. Krafa ríkisbréfa hefur þó lítið breyst það sem af er degi og kann að vera að fjárfestar bíði í senn frekari frétta af Icesave-málum sem og nýrra verðbólgutalna sem birtast munu á miðvikudagsmorgun.

Ávöxtunarkrafan á seldum RIKB25-bréfum í útboði Lánamála ríkisins síðastliðinn föstudag var sú lægsta frá því flokknum var hleypt af stokkunum í fyrrasumar, og ávöxtunarkrafan á seldum RIKB11-bréfum var sú lægsta síðan í september á síðasta ári.

Allgóð þátttaka var í útboðinu, og bárust alls tilboð að fjárhæð 17,6 milljarðar kr. í fyrrnefnda flokkinn en að fjárhæð 11,8 milljarðar kr. í þann síðarnefnda. Var tilboðum tekið í RIKB25 fyrir 1,5 milljarð kr. á 7,62% ávöxtunarkröfu en í RIKB11 var tilboðum fyrir 8,8 milljarða kr. tekið á 7,13% ávöxtunarkröfu.

Áhersla Lánamála virðist því hafa verið á stækkun RIKB11-flokksins að þessu sinni, en hann er nú orðinn u.þ.b. 21,4 milljarðar kr. að stærð, miðað við nafnverð og að frátöldum lánsbréfum. Hefur flokkurinn því ríflega tvöfaldast að stærð í útboðum febrúarmánaðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×