Erlent

Rafbyssa bjargaði allsberu vöðvatrölli

Óli Tynes skrifar
Zzzzapppp
Zzzzapppp

Hvorki lögreglukylfur piparúði né lögregluhundur dugðu til þess að yfirbuga allsbert sex feta vöðvatröll sem gekk berserksgang í bænum Viktoríu í Kanada um síðustu helgi.

Lögreglan var kölluð út þegar maður á tvítugsaldri hóf að öskra á konu sem var að reyna að leggja bíl sínum í stæði við heimili sitt.

Þegar fyrsti lögregluþjónninn kom á vettvang hitti hann fyrir nakinn mann sem var yfir sex fet á hæð, um eitthundrað kíló að þyngd og einstaklega stæltur. Hann var líka einstaklega æstur.

Lögregluþjónninn greip til kylfu sinnar til þess að yfirbuga manninn. Þegar hún hafði enginn áhrif hörfaði hann og dró upp skammbyssu sína.

Sem betur fór kom annar lögregluþjónn á vettvang rétt í því. Sá fyrsti slíðraði þá skammbyssuna og þeir reyndu í sameiningu að yfirbuga manninn.

En þótt þeir beittu bæði kylfum og piparúða var það eins og að skvetta vatni á gæs. Jafnvel þegar lögregluhundur blandaði sér í slaginn dugði það ekki til.

Það vildi hinum óða manni til happs að þá kom þriðji lögreglumaðurinn á vettvang. Sá var vopnaður rafbyssu og sekúndu síðar var búið að yfirbuga manninn.

Rob Piercy lögregluliðþjálfi sagði að rafbyssan hefði bjargað lífi mannsins. Hann hafi verið mjög sterkur og snöggur og erfitt að handtaka hann.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem rannsókn leiddi í ljós að hann kann að hafa verið undir áhrifum áfengis eða lyfja.

Honum var síðar sleppt gegn loforði um að mæta fyrir rétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×