Skoðun

Velkomin á nýjan Vísi!

Freyr Einarsson skrifar
Nýr og endurbættur Vísir lítur nú dagsins ljós. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á vefnum. Hann er nú ekki bara sterkur fréttavefur heldur einnig fjölbreyttur afþreyingarmiðill.

Á Vísi verður nú aðgengilegt á einum stað mikið af því góða efni sem verður til á hverjum degi hjá öllum fjölmiðlum 365 miðla. Brot af því besta frá Stöð 2, Stöð 2 Sport, Bylgjunni, FM957, X-inu og Fréttablaðinu.

Við leggjum sérstaka áherslu á sjónvarpsefnið, sem sýnt er í meiri gæðum en við höfum hingað til getað boðið. Þá geta Apple-notendur nú einnig horft á sjónvarpið á Vísi. Eins og áður verða fréttatímar Stöðvar 2 í beinni útsendingu á Vísi, auk þess sem mikið af öðru efni stöðvarinnar verður gert aðgengilegt.

Í tilefni þessara tímamóta á Vísi höfum við sett inn mörg hundruð myndbrot úr dagskrá Stöðvar 2, sem nýlega hóf sitt 25. starfsár. Brot úr Spaugstofunni, Hlemmavídeói, Audda og Sveppa, Loga í beinni, Sjálfstæðu fólki, Steinda Jr., Fóstbræðrum, Tvíhöfða og fleiri góðum þáttum. Við ætlum að bjóða notendum Vísis að kynnast mörgu af því góða innlenda sjónvarpsefni sem í boði er á Stöð 2 og Stöð 2 sport - bæði gömlu og nýju. Nýtt efni bætist við á hverjum degi.

Fyrst fjölmiðla bjóðum við upp á fréttir, íþróttir og ýmislegt annað sjónvarpsefni í nýjustu gerðir farsíma og í búnað á borð við iPad. Notendur geta skoðað farsímaútgáfuna á m.visir.is.

Fréttamiðlun Vísis er unnin á sameiginlegri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar sem er ein stærsta og öflugasta fréttaritstjórn landsins. Auk þess koma reglulega inn fréttir á vefinn frá blaðamönnum Fréttablaðsins. Við stefnum að því að styrkja áfram fréttirnar á Vísi og munum auka vægi sjónvarpsfrétta, fréttaskýringa og fréttaviðtala á vefnum. Við munum oftar bjóða upp á beinar útsendingar frá fréttnæmum viðburðum í margfalt meiri myndgæðum en áður.

Vísir heldur áfram að þróast og munu lesendur finna fyrir breytingum á vefnum á næstu mánuðum. Ég vona að notendur Vísis verði ánægðir með þær breytingar sem nú liggja fyrir og njóti fjölbreytileikans sem Vísir býður upp á.

Vísir er málið!










Skoðun

Sjá meira


×