Erlent

Chavez lokar sjónvarpsstöð

Óli Tynes skrifar

Húgó Chavez forseti Venesúela hefur látið loka sjónvarpsstöð sem hefur verið gagnrýnin á stjórn hans.

Radio Caracas Television missti starfsleyfi sitt árið 2007 og hefur síðan eingöngu verið send út um kapal. Kapalþjónum var í gær skipað að hætta allri þjónustu við stöðina.

Hún hafði þá sent út dagskrá og fréttir í 55 ár.

Chavez er frekar lítið fyrir gagnrýni og á síðasta ári lokaði hann þrjátíu og tveim einkareknum útvarpsstöðvum.

Hann hótaði jafnframt að loka tvöhundruð stöðvum til viðbótar ef þær bættu ekki ráð sitt. Meðal þess sem forsetinn fann að þessum stöðvum var að þær útvörpuðu ekki öllum ræðum hans í heild sinni.

Forsetinn flytur vikulega að minnsta kosti langar sjónvarpsræður sem ætlast er til að allir fjölmiðlar landsins geri skil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×