Viðskipti innlent

Átján tilboð hafa borist í Securitas

Sigríður Mogensen skrifar
Átján óskuldbindandi tilboð hafa borist í Securitas. Farið verður yfir tilboðin og síðan ákveðið hverjir fá að senda inn skuldbindandi tilboð.

Öryggisfyrirtækið Securitas er ein helsta eign þrotabús Fons, en kröfur í þrotabúið nema 40 milljörðum. Glitnir banki er stærsti kröfuhafinn með helming krafna.

Skiptastjóri þrotabús Fons setti Securitas í opið söluferli um miðjan febrúar. Ferlið var opið öllum fjárfestum sem uppfylltu skilyrði fagfjárfesta auk fjárfesta sem gátu sýnt fram á eiginfjárstöðu sem nemur 300 milljónum króna eða meira eða fjármögnunarvilyrði frá fjármálastofnun sem metið er fullnægjandi.

Nú hafa átján óskuldbindandi tilboð borist í félagið. Skiptastjóri Fons mun yfirfara tilboðin og meta hverjir fá aðgang að frekari gögnum um Securitas. Í framhaldinu geta þeir sem hafa enn áhuga sent inn skuldbindandi tilboð í félagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×