Innlent

Vilja ná utan um skattaundanskot til útlanda

Unnið er að því að stórefla embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknir. Þá vill Fjármálaráðherra heimild til að kyrrsetja eignir þegar stór mál eru til rannsóknar.

Fjármálaráðherra hyggst endurflytja frumvarp um kyrrsetningu eigna í þágu skattrannsókna á næstu vikum. Frumvarpið fór ekki í gegnum þingið í september vegna andmæla stjórnarandstöðu. Verði frumvarpið að lögum fá skattayfirvöld heimild til að kyrrsetja eignir þegar stór mál sæta rannsókn.

„Til þess að fjármunir gangi ekki undan hinu opinbera til greiðslu sekta eða til þess að standa skil á vangreiddum sköttum," segir Steingímur.

Fjármálaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að unnið væri að því að stórefla embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknir:

„Það er verið að ráða þar inn nýtt fólk og við höfum sett í það aukna fjármuni. Og við erum að styrkja löggjöfina líka hvað þetta varðar. Við höfum breytt ýmsum lögum sem auðvelda skattinum að ná utan um skattaundanskot til útlanda, til aflandssvæða. Við höfum innleitt svokallaðar CFC reglur sem gera skattinum hér heima kleift að samskatta móðurfélag á Íslandi og dótturfélag á aflandseyjum," segir Steingrímur.

„Við viljum fá þessar kyrrsetningarheimildir í öll skattalög, þau eru til staðar í einum lögum í dag. Og dómstólar hafa hafnað því að nota hefðbundna tilvísun yfir í önnur lög. Þannig að við þurfum að fá þau inn í mismunandi bálka skattalaganna. Þannig að það sé hægt að beita kyrrsetningu óháð því hvaða skattur það var sem var skotið undan."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×