Innlent

Sárvantar fólk til starfa

Hugbúnaðargeirann sárvantar fólk til starfa, segir forstjóri Marorku, og segir að niðurskurður á kennslu í tæknigreinum muni hamla eðlilegum vexti greinarinnar, sem skapað gæti mörg þúsund ný störf á næstu árum.

Á ársfundi Vinnumálastofnunar fyrir helgi lýsti forstjóri Marorku, Jón Ágúst Þorsteinsson, miklum áhyggjum af vinnuaflsskorti. Marorka framleiðir hugbúnað til að auka hagkvæmni skipareksturs og selur skipaútgerðum víða um heim.

Jón Ágúst segir að það sárvanti fólk í forritun og hugbúnaðargerð; kerfisstjóra, verkfræðinga, rafeindafræðinga, vélfræðinga og svo framvegis.

Hann nefndi að Marorka væri að skrifa undir stóra samninga við þýskt stórfyrirtæki og um verkefni í Noregi.

"En við vitum ekki hvernig við leysum þau því að við höfum ekki fólkið, ekki á Íslandi allavega," segir Jón Ágúst.

Hann gagnrýnir forgangsröðun í niðurskurði til menntamála. Skera eigi mikið niður í raungreinum meðan viðskiptagreinar og aðrar félagsfræðigreinar séu ekki skornar niður í sama mæli.

Hann segir að hugbúnaðargeirinn muni geta skapað tíu þúsund ný störf í landinu á næstu tíu árum, þúsund ný störf á hverju ári.

"Ef við skerum þessar greinar niður núna, ef við skerum niður í raungreinunum, þá erum við að taka niður þennan iðnað í staðinn fyrir að láta hann vaxa á Íslandi," segir forstjóri Marorku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×