Innlent

Vilja reka móttöku fyrir eigin reikning

Starfsmenn vilja taka yfir rekstur safns og móttökurýmis.
Starfsmenn vilja taka yfir rekstur safns og móttökurýmis.
Viðræður standa yfir milli Orkuveitu Reykjavíkur og fyrrverandi starfsmanna um rekstur á móttökurými og safni í Hellisheiðarvirkjun. Móttökurýminu var lokað samhliða uppsögnum í fyrirtækinu í október. Mikill fjöldi fólks hefur heimsótt rýmið á hverju ári, langmest ferðamenn.

„Það eru nokkrir fyrrverandi starfsmenn sem hafa sýnt áhuga á að reka þarna þjónustu á sína áhættu,“ segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi OR. Hann segir mikla fjármuni vera í rýminu, sem er hið glæsilegasta. „Það standa yfir viðræður við þá, sem fyrirtækið hefur gengið inn í með opnum huga. Við þessar aðstæður sjáum við okkur ekki fært að bera kostnaðinn af þessu,“ segir Eiríkur.

Ókeypis hefur verið í safnið og fyrirtækið treysti sér ekki til að taka þá áhættu að sjá hvort gjaldtaka myndi skila sér, jafnvel þótt gestagangur hafi verið mikill.

Minjasafninu og Rafheimum í Elliðaárdal var líka lokað. Eiríkur segir að um nokkra hríð hafi verið viðræður við háskólasamfélagið og Árbæjarsafn um samstarf við þann rekstur. „Menn hafa verið að þreifa sig áfram með þetta en þessar ákvarðanir hér hafa vissulega ýtt við hlutum.“ - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×