Innlent

Eldur braust út í Goðafossi

Skipverjum var boðin áfallahjálp þegar Goðafoss kom til Færeyja í gær. Skipið sigldi eftir það áleiðis til Bretlands. Fréttablaðið/pjetur
Skipverjum var boðin áfallahjálp þegar Goðafoss kom til Færeyja í gær. Skipið sigldi eftir það áleiðis til Bretlands. Fréttablaðið/pjetur
Eldur varð laus í reykháfi á Goðafossi, gámaflutningaskipi Eimskipafélagsins, þar sem það var á siglingu í slæmu veðri milli Íslands og Færeyja aðfaranótt laugardags.

„Það er alltaf hætta á ferðum þegar eldur kviknar í skipi,“ segir Ólafur W. Hand, forstöðumaður markaðs- og upplýsingamála hjá Eimskipi. Hann segir að þakka megi góðri þjálfun skipverja og öryggisbúnaðinum um borð fyrir að ekki fór verr. Um tugur er í áhöfn skipsins.

Þrátt fyrir að slæmt veður torveldaði skipverjum verkið gekk fremur greiðlega að ráða niðurlögum eldsins. Hann kviknaði í stromphúsi út frá olíuleka.

Skipverjar voru í sambandi við Landhelgis­gæsluna og björgunarmiðstöðina í Færeyjum. Varðskip var til taks en ekki þurfti að senda björgunarmenn til að aðstoða skipverja, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Skipið kom til Færeyja í gær og var skipverjum boðið upp á áfallahjálp vegna eldsvoðans. Einhverjar skemmdir urðu á rafkerfi skipsins, en vel gekk að gera við, segir Ólafur. Skipið var lagt af stað áleiðis til Bretlands í gærkvöldi. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×