Lífið

Óli Palli frumsýnir Þyrlurokksmynd

Útvarps- og Skagamaðurinn frumsýnir heimildarmynd um Þyrlurokk í næsta mánuði.
Útvarps- og Skagamaðurinn frumsýnir heimildarmynd um Þyrlurokk í næsta mánuði. fréttablaðið/vilhelm
Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður á Rás 2, frumsýnir á næstunni heimildarmynd um tónleikana Þyrlurokk sem hann hélt í heimabæ sínum Akranesi fyrir tuttugu árum.

„Tíminn flýgur og nú eru tuttugu ár liðin. Af því tilefni sótti ég um styrk til að búa til úr þessu eitthvað sem fleiri en ég gætu haft gaman af að sjá," segir Óli Palli, sem fékk 200 þúsund króna styrk frá Akranesbæ til verksins. Afraksturinn verður sýndur í Gamla kaupfélaginu á Akranesi 24. júlí.

„Þetta var allt saman myndað en reyndar á frumstæðan hátt. Það eru fimm klukkustundir af efni sem eru til og margt mjög lélegt. Sumt af þessu er einhver versta músík-frammistaða sem hefur verið framin á vesturlandi í það minnsta og þeim mun skemmtilegra," segir Óli.

Ellefu hljómsveitir tóku þátt í hátíðinni, þar á meðal Bróðir Darwins og Bleeding Volcano með Gunnar Bjarna úr Jet Black Joe á gítar.

„Ég á ekki von á að þetta verði óskarsverðlaunamynd en þetta er alla vega skemmtilegt, þó ekki nema fyrir þá sem voru þarna og þá sem til þekkja. Þetta var gert af miklum vanefnum. Ég var tvítugur þegar ég var að undirbúa þetta. Ég vonaði að ég þyrfti ekki að borga með mér því ég gekk í persónulegar ábyrgðir fyrir öllu saman," segir hann.

Tónleikarnir tókust vel og um sjö hundruð manns borguðu 500 krónur fyrir að sjá Þyrlurokkið, sem var þarna haldið í fyrsta og eina sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.