Viðskipti innlent

Lántökur ríkissjóðs námu tæpum 437 milljörðum í fyrra

Lántökur ríkissjóðs námu alls 436,8 milljarða kr. á árinu 2009. Ríkissjóður seldi ríkisbréf fyrir um 194,5 milljarða kr. og jók útistandandi stöðu ríkisvíxla um 9 milljarða kr. Einnig gaf ríkissjóður út nýjan flokk ríkisskuldabréfa til fjármögnunar eiginfjárframlagi til bankanna og veittum lánum því tengdu að fjárhæð 186 milljarða kr.

Þá tók ríkissjóður erlend lán frá Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi að andvirði tæpra 47 milljarða kr., að því er segir í tilkynningu um uppgjör ríkissjóðs fyrir síðasta ár.

Hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs er neikvæður um 161,5 milljarða kr. og minnkar um tæpa 237 milljarða kr. frá fyrra ári. Það skýrist að stærstu leyti með afskriftum á yfirteknum dag- og veðlánakröfum frá Seðlabanka Íslands.

Afborganir ársins námu 233,2 milljörðum kr. og þar af voru erlend lán fyrir rúma 26 milljarða kr. Afborganir ríkisverðbréfa námu rúmum 71 milljörðum kr. og 134 milljarðar kr. voru greiddir af láni sem gefið var út til Seðlabankans á árinu 2008 með því að Seðlabankinn keypti af ríkissjóði fyrrnefndar veðkröfur. Heildar lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs var þannig neikvæður um 394,7 milljarða kr. á síðasta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×