Erlent

Bjórinn rýkur út í Suður-Afríku

Það er hátíð hjá eigendum öldurhúsa og veitingastaða í Suður-Afríku því sala á bjór hefur stóraukist í landinu í kjölfar heimsmeistaramótsins í knattspyrnu þar sem tugir þúsunda aðdáenda liðanna sötra mjöðinn á meðan þeir hvetja sína menn áfram.

Hjá sönnum knattspyrnuaðdáaendum er það mikið verkefni og átak að fylgjast sínu liði keppa í þessari vinsælustu íþrótt heims. Má segja að fólk fari í gegnum allan tilfinningaskalann þessar níutíu mínútur og skammt er á milli hláturs og gráturs. Menn þurfa því að róa taugarnar og svala þorstanum með köldu öli og kráareigendur í Suður-Afríku njóta góðs af því á meðan HM stendur yfir.

Allt frá fínum börum í Höfðaborg til ólöglegra knæpuhola í fátækrahverfum í nærsveitum eru allir að lyfta glasi fyrir fótboltahátíðinni og fá sér vitaskuld sopa í leiðinni.

Bufi Zulu, sem rekur ólöglega knæpu í Soweto hverfinu í Jóhannesarborg, segist hafa keypt sérstaklega mikið af bjór vegna heimsmeistaramótsins.

„Þeir vilja drekka og fagna á meðan þeir horfa á leikina og ef við vinnum þarf auðvitað líka að fagna. Þegar áfengisbúðirnar eru lokaðar græði ég enn meira," segir Bufi Zulu.



Mótið stendur yfir í mánuð og nær hámarki í úrslitaleiknum á nýja Soccer City vellinum í Jóhannesarborg sem var sérstaklega byggður fyrir mótið. Leikvangurinn er oft kallaður "Calabash" þar sem hönnun hans líkir eftir engu öðru en hefðbundnum afrískum bruggpotti.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×