Innlent

Knattspyrnuþjálfarar biðla til ljósmyndaþjófa

Valur Grettisson skrifar
Laugardalshöll. Myndin er úr safni.
Laugardalshöll. Myndin er úr safni.

Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands óskar eftir vitnum af því þegar myndavélum var stolið úr höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal þann 13. nóvember síðastliðinn.

Ljósmyndavörur voru teknar ófrjálsri hendi þar sem þær voru geymdar yfir nótt í einu herbergi inn af veislusal KSÍ. Félagið leitar nú að vörunum og er tilbúið að kaupa þær til baka.

Mesta tjón félagsins er þó ekki stuldurinn á myndavélunum sjálfum, heldur myndirnar sem voru á minniskortunum.

Ljósmyndari félagsins hafði tekið hundruð mynda af vel heppnaðri afmælisveislu Knattspyrnuþjálfarafélagsins sem nú hafa glatast. Í veislunni voru 70 aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu knattspyrnunnar undanfarin 40 ár.

Þeir sem telja sig hafa séð myndavélarnar eða vita af þeim er vinsamlegast bent á að koma þeim upplýsingum til KÞÍ á einn eða annan hátt.

Þá vill félagið koma þeim skilaboðum áleiðis að ef viðkomandi hefur keypt vörurnar eða hefur þær í sinni vörslu þá er KÞÍ tilbúið að kaupa þær svo lengi sem myndirnar eru ennþá á minniskubbunum.

Hér fyrir neðan má finna lista yfir hlutina sem var stolið.

Canon EOS Rebel myndavél

Linsa 18-55 mm

Linsa 200 mm

Linsa 55-200 mm

3 minniskort

Samsung digital myndavél

Þrífótur

2 batterí

Hleðslutæki

Tölvutengi

Bók um stafræna ljósmyndun

Bæklingur um Canon EOS Rebel

Bakpoki




Fleiri fréttir

Sjá meira


×