Skoðun

Niður­felling sak­sóknar og Níumenningamálið

Einar Steingrímsson skrifar

Í fréttum RÚV um liðna helgi var fjallað um hið svokallaða Níumenningamál, þar sem lögfræðiprófessor nokkur kallaði áskorun á dómsmálaráðherra um niðurfellingu saksóknar „gróf afskipti af dómsvaldinu".

Því miður kom ekki fram neinn rökstuðningur prófessorsins fyrir þessari skoðun, og ekki var útskýrt hvenær mætti yfirleitt beita 29. grein stjórnarskrárinnar, sem heimilar dómsmálaráðherra að fella niður saksókn, né heldur af hverju það gæti ekki átt við í máli níumenninganna.

Hæstiréttur hefur a.m.k. tvisvar fjallað um beitingu 29. greinarinnar (mál 85/1958 og 95/1946), og ljóst er að rétturinn telur ekkert athugavert við að dómsmálaráðherra beiti henni (þótt formlega séð geri hann tillögu til forseta).

Almennt er samstaða um að framkvæmdarvaldið eigi ekki að grípa fram í fyrir dómsvaldinu. Oft gleymist hins vegar í umræðum um þrískiptingu ríkisvaldsins, að greinarnar þrjár eiga að tempra vald hver annarrar. Það er góð ástæða fyrir 29. grein stjórnarskrárinnar, nefnilega að ef ákæruvaldið fer offari, þá þarf að vera hægt að stoppa það. Svo dæmi sé tekið má hugsa sér að einhver sé ákærður fyrir að hafa banað manni sem er enn á lífi. Slíka saksókn ætti ráðherra að sjálfsögðu að stöðva. Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á réttmæti ákærunnar á grundvelli 100. greinar hegningarlaga gegn níumenningunum, en nánast enginn hefur haldið því fram opinberlega að hún sé verjandi. Það er skiljanlegt, því 100. greinin fjallar um tilraunir til að svipta Alþingi „sjálfræði", og hún tilheyrir XI. kafla hegningarlaga, en sá kafli fjallar um vernd gegn valdaráni.

Í frumvarpinu þegar þessi lög voru samþykkt 1940 segir m.a.: „Í þennan kafla er safnað ákvæðum um vernd ríkjandi stjórnskipunar, eins og hún er ákveðin í stjórnarskránni og öðrum stjórnskipunarlögum. Enn fremur er ákveðin sérstök vernd fyrir æðstu handhafa ríkisvaldsins, konung eða ríkisstjóra, ráðuneytin, Alþingi, landsdóm og Hæstarétt, enda beinist verknaður, sem miðar að ólöglegri breytingu stjórnskipunarinnar, að jafnaði fyrst að þessum aðiljum, einum eða fleiri." Ljóst ætti því að vera að hér er fjallað um valdaránstilraunir, enda er refsing fyrir brot á 100. grein í samræmi við það, eins árs til lífstíðar fangavist. Jafn augljóst er að aðgerð níumenninganna ógnaði ekki sjálfræði Alþingis, né miðaði hún að „ólöglegri breytingu stjórnskipunarinnar".

Einnig er, í f-lið 113. greinar laga um meðferð opinberra mála, ákvæði sem heimilar að fella niður mál, „ef sérstaklega stendur á og telja verður að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar". Þetta gæti settur saksóknari í málinu, Lára V. Júlíusdóttir, gert enda er vandséð hvaða almannahagsmunum það þjónar að dæma til langrar fangelsisvistar mótmælendur sem greinilega höfðu engan saknæman ásetning.

Verði saksókn í máli níumenninganna haldið til streitu verður það óhjákvæmilega ljótur blettur á íslensku réttarfari, og hætt við að það sár grói seint, rétt eins og gerðist með ákærurnar vegna mótmælanna á Austurvelli 1949. Saksóknari gerði mistök, sem hún ætti að leiðrétta, vilji hún síður skrá nafn sitt í sögubækurnar með þessum miður geðfellda hætti. Þrjóskist hún við, þvert á afstöðu lögreglunnar sem rannsakaði málið, ætti dómsmálaráðherra að taka í taumana.

 




Skoðun

Sjá meira


×