Innlent

Umferð flutningabíla á skólalóð mótmælt

Pétur Hafþór Jónsson
Pétur Hafþór Jónsson

Foreldrar barna í Austurbæjarskóla telja öryggi þeirra á skólalóðinni ógnað af umferð flutningabíla frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveitan á húsnæði við suðurenda Austurbæjarskólans. Þar var áður spennistöð en um árabil hefur verið þar geymsla. Fyrirtækið á umferðarrétt um lóðina.„Breytt nýting húsnæðisins hefur meðal annars haft í för með sér flutninga á risavöxnum spólum, vinnuvélum og umferð þungra ökutækja á skólalóðinni. Hefur undirrituð orðið vitni að meðal annars flutningi vörubíls á lyfturum tvívegis í sömu vikunni nú í nóvember. Var einungis einn starfsmaður með í för,“ segir í bréfi sem formaður Foreldrafélags Austurbæjarskóla, Birgitta Bára Hassestein, sendi framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar 15. nóvember.

Í bréfi til byggingarfulltrúa í febrúar á þessu ári lýsti Birgitta þungum áhyggjum starfsmanna og foreldra. Meðal annars sagðist hún hafa séð vörubíl með tengivagni, sem á hafi verið allt að þriggja metra háar spólur, taka knappar beygjur áður en hann sneri við og bakkaði að geymslunni.

„Hver sem verður vitni að þessu áttar sig á að þetta getur verið stórhættulegt,“ segir í bréfinu.

Byggingarfulltrúi bað um skýringar frá Orkuveitunni. Í svari fyrirtækisins segir að fróðustu menn viti ekki til að slys hafi orðið á fólki við umrætt húsnæði frá því að það var tekið í notkun. Geymslan sé notuð fyrir mjög sérhæfða varahluti sem örsjaldan þurfi að nálgast.

„Þá hefur ávallt verið gætt fyllsta öryggis gagnvart umferð og fólki (nemendum) í nágrenni stöðvarinnar,“ segir í svari Orkuveitunnar sem enn fremur upplýsir að taka eigi húsnæðið úr notkun á næstu árum.

Í kjölfar skoðunar á málinu sagðist byggingarfulltrúi í apríl ekki mundu aðhafast frekar. „En til þess að tryggja öryggi skólabarna er lagt til að skólastjórn Austurbæjarskóla og OR komi sér saman um setningu öryggisreglna sem viðhafðar verði vegna aðkomu að húsnæðinu,“ segir í svari til formanns foreldrafélagsins.

Pétur Hafþór Jónsson, tónlistar­kennari í Austurbæjarskóla, segir bæði mengun og slysahættu af vörubílum Okruveitunnar. „Það er fáránlegt að þetta skuli vera inni á skólalóð. Slysin gera ekki boð á undan sér og það er mengun af þessu. Mér finnst að svona stöndug fyrirtæki eins og Orkuveitan eigi að sjá sóma sinn í því að fara með þetta annað en vera ekki að þumbast við.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×