Erlent

Komorowski öruggur um sigur

Komorowski með Önnu eiginkonu sinni í gær.
Komorowski með Önnu eiginkonu sinni í gær. MYND/AP

Bronislaw Komorowski, hefur nú fengið 52,6 prósent atkvæða í forsetakosningunum í Póllandi sem fram fóru í gær þegar 95 prósent atkvæða hafa verið talin.

Mótframbjóðandinn Jaroslaw Kaczynski játaði sig sigraðan í gærkvöldi en eftir að hann gerði það fóru tölur að gefa til kynna að hann kynni að hafa sigrað. Það breyttist þó á ný og nú er fátt talið geta komið í veg fyrir sigur Komorowskis. Búist er við því að lokatölur liggi fyrir síðar í dag.

Kaczynski er tvíburabróðir Lech Kacyniski fyrrverandi forseta sem fórst í flugslysi í Rússlandi fyrr á árinu ásamt mörgum af helstu áhrifamönnum landsins en Komorowski er fyrrverandi forseti þingsins og hefur gegnt embætti forseta síðan Lech Kaczynski lést. Kosningin á milli þeirra tveggja fór fram þegar ljóst var að enginn frambjóðandi hafði náð 50 prósentum í fyrri umferð.

Komorovski kemur úr stærsta stjórnmálaflokki Póllands en Kaczynski er hins vegar meðlimur í helsta stjórnarandstöðuflokknum. Á meðal stefnumála Komorovskis eru markaðsumbætur og aukin samskipti við ríki Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×