Erlent

Sagður úr tengslum við fólk

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir múslima hafa sama rétt og aðra.
nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir múslima hafa sama rétt og aðra. nordicphotos/AFP
Yfirlýsingar Baracks Obama Bandaríkjaforseta, um að hann hafi hreint ekkert að athuga við það að múslimar reisi sér mosku rétt hjá „Ground zero“, staðnum þar sem Tvíburaturnarnir í New York stóðu, hafa vakið hörð viðbrögð sumra hægrimanna í Bandaríkjunum.

Þannig sagði John Comryn, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, að Obama væri úr tengslum við almenning í Bandaríkjunum. Kjósendur muni síðan kveða upp dóm sinn í næstu þingkosningum, sem verða haldnar í nóvember. „Við þurfum öll að viðurkenna og virða þá viðkvæmni sem tengist uppbyggingunni á neðri hluta Manhattan,“ segði Obama í ræðu um þetta deilumál nú um helgina; „Ground zero er vissulega helgur staður.“

Á hinn bóginn trúi hann því, „sem borgari og sem forseti,“ að í Bandaríkjunum hafi múslimar sama rétt og aðrir til að stunda trú sína. „Og það felur í sér rétt til að byggja bænahús og félagsmiðstöð á einkalóð á neðri hluta Manhattan, í samræmi við lög og reglur staðarins.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×