Lífið

Sumarsmellirnir valda vonbrigðum

Jake Gyllenhaal hafði ekki alveg það aðdráttarafl sem framleiðendur Prince of Persia vonuðust til.
Jake Gyllenhaal hafði ekki alveg það aðdráttarafl sem framleiðendur Prince of Persia vonuðust til.
Að mati flestra kvikmyndaspekúlanta eru kvikmyndaverin ekki ánægð með byrjun sumarsins. Engin mynd hefur náð einhverjum hæðum í miðasölu og sumir bíða jafnvel bara eftir næsta sumri.

Miklar vonir voru bundnar við kvikmyndir á borð við Prince of Persia, Sex and the City 2 og Schrek Forever. Að ekki sé talað um Clash of the Titans eða Hróa hött en kvikmynd Ridley Scott er sennilega eina myndin sem hefur fengið virkilega góða dóma.

En áhorfendur hafa verið fremur áhugalausir. Myndirnar hafa vissulega halað inn nokkrar milljónir - þetta er ekkert stórslys - en ekkert í líkingu við þær sumarmyndir sem hafa einokað kvikmyndasali bíóhúsa. Og þegar menn munu gera sumarið upp er líklegt að Hollywood setji allt á fullt fyrir næsta sumar, gósentíð sína.

The Hangover 2 verður frumsýnd næsta sumar en fyrstu timburmennirnir áttu ótrúlega spretti í fyrra.
Perri Nemiroff, blaðamaður hjá Cinematical.com, segir sumarið mikil vonbrigði.

Hann spáir því að Toy Story 3 muni kannski ná í skottið á sumarsmella-statusnum, eftirspurnin eftir myndinni hefur byggst upp í tíu ár.

Nýir áhorfendur, sem hafa horft á fyrri myndirnar tvær á DVD, munu borgar sig inn en sömuleiðis eldri hópurinn.

Nemiroff er hins vegar efins um kvikmyndir á borð við The A-Team og Knight and Day með Tom Cruise og Cameron Diaz. Þær myndir verða frumsýndar á næstunni hér á Íslandi.

„Myndin hefur vissulega verið að fá fín viðbrögð á forsýningum en ég held að það nægi ekki," skrifar Nemiroff á heimasíðu sinni.

Hinar ódýru myndir hafa hins vegar náð alveg ágætis árangri. Þar nægir að nefna Get him to the Greek með Russell Brand í aðalhlutverki.

Myndin var tiltölulega ódýr í framleiðslu, svona miðað við allt hitt tæknibrelludótið, og hefur skilað ágætis tekjum í kassann eða 17 milljónum dollara. Nemiroff spyr sig hvort þetta sé sumarið án sumarsmella.

Jack Sparrow mætir í fjórðu sjóræningjamyndinni næsta sumar.

Því er ekkert óeðlilegt að menn horfi til sumarsins 2011 og velti því fyrir sér hvort stórtíðindi séu í kortunum fyrir það árið. Miðað við listann er ljóst að Hollywood bregst skjótt við; framhaldsmyndir eru enn á ný áberandi.

Hugsanlega verða síðustu tvær myndirnar í Harry Potter-flokknum einhverjar mestu metsölumyndir allra tíma. Fyrri myndin verður raunar jólamynd, frumsýnd þann 19. nóvember.

En sú seinni verður tekin til sýningar þann 15. júlí.

Tinna-mynd Stevens Spielberg verður sömuleiðis frumsýnd sumarið 2011, Captain America og teiknimyndirnar Cars 2 og Kung Fu Panda 2, en fyrri myndirnar möluðu gull. Þá er Transformers 3 einnig væntanleg en Michael Bay hefur væntanlega í hyggju að gera mun betur í þetta skipti.

Potterinn mætir 19. nóvember á næsta ári.
Ekki má heldur gleyma framhaldsmyndinni The Hangover 2 en fyrstu timburmennirnir áttu ótrúlega spretti í fyrra. Enginn skyldi síðan útiloka fjórðu myndina um Jack Sparrow og sjóræningja Karíbahafsins en síðustu fréttir herma að Megan Fox muni leika hafmeyju í þeirri mynd.

Penelope Cruz hefur verið fengin til að hressa aðeins upp á útlitið en hvorki Keiru Knightley né Orlando Bloom hefur verið boðið um borð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.