Innlent

Veitir aðstoð og rekur erindi skuldara

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Embætti umboðsmanns skuldara er ætlað mun viðameira hlutverk en Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur haft með höndum. Embættið verður reist á grunni Ráðgjafarstofunnar og tekur til starfa við samþykkt frumvarps félags- og tryggingamálaráðherra þar um.

Meðal þess sem breytist er að umboðsmaður skuldara á að gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim. Þá á hann að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi.

Samkvæmt frumvarpinu getur umboðsmaður krafið stjórnvöld, fyrirtæki og samtök um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu, jafnvel þó lög mæli fyrir um þagnarskyldu.

Starfsmönnum Ráðgjafarstofunnar verða boðin störf hjá nýja embættinu. Lánastofnunum verður gert að standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara. Áætlað er að árlegur rekstrarkostnaður nemi 330 milljónum króna auk þess sem stofnkostnaður á þessu ári verði 33 milljónir.

Samkvæmt frumvarpinu eiga lánastofnanir að greiða gjöld vegna starfseminnar beint til umboðsmanns. Fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemd við þá tilhögun og telur rétt að gjöldin renni í ríkissjóð og fjármunum verði veitt til embættisins á fjárlögum hverju sinni. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×