Viðskipti innlent

Íslenski bílaflotinn með þeim elstu í Evrópu

Íslenski einkabílaflotinn er nokkuð eldri en bílaflotar flestra helstu Evrópuríkja og munar tæpum tveimur árum á meðalaldri bíla á Íslandi og bíla í Evrópusambandslöndunum.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu er meðalaldur íslenskra bíla 10,2 ár, samkvæmt nýjustu tölum Umferðarstofu. Meðalaldur bíla í löndum Evrópusambandsins er hins vegar 8,5 ár, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá ACEA, samtökum bílaframleiðenda í Evrópu. Fyrir 20 árum, árið 1989, var meðalaldur íslenska bílaflotans 7,5 ár.

 

Sem dæmi um meðalaldur einkabíla í nokkrum nágrannalöndum má nefna að í Bretlandi er hann 6,7 ár, á Ítalíu 7,5 ár, í Þýskalandi og Frakklandi 8,1 ár, Danmörku 9,1 ár og í Svíþjóð 9,4. Finnar eru þeir einu sem hafa eldri bílaflota en Íslendingar í tölum ACEA, eða 10,5 ár. Samkvæmt upplýsingum frá norsku hagstofunni eru Norðmenn á svipuðu róli og Íslendingar, með 10,3 ára bílaflota.

 

Upplýsingar ACEA eru frá 2006, en nýrri tölur hafa ekki verið teknar gefnar út fyrir Evrópulöndin. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, telur að meðalaldur bíla í Evrópu hafi ekki breyst verulega á þessum tíma þar sem sveiflur séu jafnan hægar í stóru Evrópulöndunum og t.a.m. sýna nýjustu tölur frá Svíþjóð svo til sama meðaltal nú og árið 2006.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×