Erlent

Að drepa fyrir frægðina

Christophe Nick, maðurinn á bak við tilraunina.
Christophe Nick, maðurinn á bak við tilraunina.

Frönsk félagsfræðitilraun hefur vakið mikla athygli en í tilrauninni var þáttakendum talin trú um að þeir væru að taka þátt í nýjum sjónvarpsþætti. Þátturinn var kallaður "Leikur dauðans" og var þáttakendum talin trú um að þeir væru að taka þátt í fyrsta þættinum og var íburðarmikil sviðsmynd sett upp eins og um alvöru spurningaþátt væri að ræða. Leikurinn gekk út á að spyrja annan þáttakanda, sem bundinn var í stól og var í raun og veru leikari, spurninga.

Ef hann svaraði vitlaust átti spyrjandinn að gefa honum raflost. Straumurinn hækkaði svo eftir því sem fleiri spurningum var svarað vitlaust. Leikurinn endaði svo á því að maðurinn virtist deyja. 80 konur og karlar á öllum aldri voru fengin til að taka þátt í þættinum, eða tilrauninni, og kom það vísindamönnunum þónokkuð á óvart að 80 prósent þáttakenda héldu áfram uns maðurinn í rafmagnsstólnum gaff upp öndina.

Þátturinn fór í loftið í Frakklandi í gær en í raun var um heimildamynd að ræða.

Aðeins 16 manns stóðu upp og neituðu að taka þátt í leiknum. Að lokum var fólkið spurt út í hversvegna það hefði haldið áfram að pynta manninn fram í rauðan dauðann og svöruðu margir á þá leið að þrátt fyrir að kenna í brjósti um manninn hefðu þeir ekki viljað eyðileggja þáttinn.

Tilrauninni svipar til annarar sem gerð var í Bandaríkjunum árið 1963. Þar var þáttakendum sagt að gefa manni raflost og hlýddu flestir þáttakenda. Mun fleiri hlýddu þó skipunum sjónvarpsfólksins og segir framsleiðandinn að von um frægð og frama hafi spilað þar stóra rullu. Mikill er máttur sjónvarpsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×