Erlent

Skálmöld í uppsiglingu á Haítí

Óli Tynes skrifar

Glæpagengi eru ekki neitt nýtt fyrirbrigði á Haítí og það hefur aðeins verið talið tímaspursmál hvenær þau færu af stað aftur eftir jarðskjálftann.

Nú er það að gerast. Í gær kom margsinnis til átaka þar sem lögreglan reyndi að koma í veg fyrir að menn færu um rænandi og ruplandi. Lögreglumenn skutu margsinnis af byssum sínum upp í loftið til þess að dreifa mannfjölda.

Það eru raunar ekki bara glæpamenn sem fara um með þessum hætti. Margir almennir borgarar hafa misst þolinmæðina þar sem þeim finnst aðstoð berast seint og illa.

Við það bætist svo að um 4000 forhertir glæpamenn losnuðu úr fangelsi í jarðskjálftanum og leika nú lausum hala.

Ríkislögreglustjóri landsins segir að lögreglan sé illa undir þetta búin. Þúsundir lögregluþjóna fórust eða slösuðust í jarðskjálftanum auk þeirra sem saknað er.

Um 4000 lögregluþjónar voru í Port au Prince fyrir skjálftann en þeir eru nú innan við fimmtánhundruð.

Bandaríkjamenn hafa sent þúsundir hermanna til landsins en þeirra hlutverk er að aðstoða við björgunarstarfið.

Sendiherra Bandaríkjanna á Haítí sagði í gær að fyrsta víglínan væri lögregla landsins og önnur víglínan væri gæslulið Sameinuðu þjóðanna á eynni.

Hann sagði þó að Bandaríkjamenn myndu veita aðastoð ef allt anna þryti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×