Erlent

Varpa neyðarvistum í fallhlífum

MYND/AP

Bandaríski herinn er byrjaður að kasta vistum í fallhlífum til fórnarlamba jarðskjálftans á Haítí.

Þessi möguleiki var áður talinn slæmur kostur því menn óttuðust að uppþot myndu skapast á jörðu niðri. Nú hafa menn skipt um skoðun og þegar hefur um 15 þúsund lítrum af vatni og 14 þúsund matarpökkum verið kastað úr flugvélum yfir höfuðborginni Port au Prince.

Um 200 bandarískir landgönguliðar eru komnir til eyjarinnar til þess að aðstoða við öryggisgæslu en fyrir voru um eitt þúsund félagar þeirra. Haítí búum er að þverra þolinmæðin eftir aðstoð og hafa rán og gripdeildir færst í aukana að sögn fréttaritara. Yfirmaður hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna gerir þó lítið úr vaxandi ofbeldi og segir ástandið gott miðað við aðstæður.

Samvinna Bandaríkjamanna og Sameinuðu þjóðanna hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig en alþjóðahjálparsamtök á borð við Lækna án landamæra segja að samskiptaleysi og lélegt skipulag hingað til gæti hafa leitt til dauða fjölda fólks þar sem hjálp hafi ekki borist í tæka tíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×