Erlent

Mannskæð árás talibana í Kabúl

Eldarnir slökktir Verslunarmiðstöðin í Kabúl sem talibanar réðust á.
fréttablaðið/AP
Eldarnir slökktir Verslunarmiðstöðin í Kabúl sem talibanar réðust á. fréttablaðið/AP

Að minnsta kosti fimm manns létu lífið þegar talibanar gerðu sprengjuárás í miðborg Kabúl, höfuðborg Afganistans. Sjö árásarmannanna létu einnig lífið og nærri fjörutíu manns særðust.

Sprengjuárás var gerð á verslunarmiðstöð og í framhaldinu stóðu yfir skotbardagar í nokkrar klukkustundir fyrir utan nokkur ráðuneyti og inni í verslunarmiðstöðinni.

Árásin er sú alvarlegasta síðan í október þegar hópur vopnaðra manna réðst á gistihús í borginni sem starfsfólk Sameinuðu þjóðanna hefur notað og drápu þar ellefu manns, þar á meðal þrjá starfsmenn Sameinuðu þjóðanna.

Árásin í gær var gerð sama dag og nokkrir ráðherrar í nýrri ríkis­stjórn Hamids Karzai sóru embættiseiða sína. Eftir rúma viku hefst í London alþjóðleg ráðstefna um Afganistan, þar sem leitað verður leiða til að styrkja stjórn Karzais og takast á við talibana.

Talsmaður talibana, sem nefnir sig Zabiullah Mujahid, sagði við fréttastofuna AP að tuttugu vopnaðir menn, sumir búnir sjálfsvígsvestum, hafi haldið inn í borgina í þeim tilgangi að ráðast á forsetahöllina og fleiri opinberar byggingar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×