Erlent

Engin skýring hefur fundist

Lögreglan hefur ekki fundið skýringar á því sem gerðist. nordicphotos/AFP
Lögreglan hefur ekki fundið skýringar á því sem gerðist. nordicphotos/AFP

Norska lögreglan rannsakar nú atburði í bænum Mortensrud, þar sem fjölskyldufaðir myrti eiginkonu sína og þrjú börn áður en hann stytti sér aldur.

Móðirin og fárra mánaða gamalt ungbarn þeirra hjóna fundust í íbúð þeirra síðdegis á miðvikudag eftir að systir konunnar hafði samband við lögreglu. Hún hafði ekki getað náð sambandi við fjölskylduna síðan á þriðjudag, sem var óvenjulegt.

Síðar um daginn fannst níu ára dóttir þeirra í stöðuvatni, sem heitir Gersjøen og er skammt frá Osló, og var þá gerð áköf leit að föðurnum og þriðja barninu, sjö ára stelpu, í von um að hún væri enn á lífi.

Seint um kvöldið urðu þær vonir að engu þegar feðginin fundust látin á svipuðum slóðum og eldri dóttirin fannst. Margt bendir til þess að morðin hafi átt sér stað strax á mánudag. Norskir fjölmiðlar halda því fram að maðurinn hafi verið frá Íran en konan frá Marokkó. Maðurinn er sagður hafa flust til Noregs árið 1993 en konan 1998.

Haft er eftir vinum fjölskyldunnar að maðurinn hafi verið rólyndur, vingjarnlegur og hjálpfús. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×