Skoðun

Hjúkrunarfræðingar í heilsugæslunni

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir og Áslaug Birna Ólafsdóttir skrifar

Í Fréttablaðinu 9. desember s.l. er sagt frá umræðum þingmanna á alþingi um möguleika á því að auka réttindi hjúkrunarfræðinga til að greina sjúkdóma eða ávísa lyfjum í því skyni að tryggja að heilsugæslan geti veitt sem mesta þjónustu um land allt. Af því tilefni vill fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Á heilsugæslustöðvum um allt land starfa hjúkrunarfræðingar. Þar gegna þeir stóru hlutverki í heilsuvernd eins og t.d. ungbarnavernd, mæðravernd og skólaheilsugæslu. Hlutverk þeirra er auk þess mikilvægt í hjúkrunarmóttökum heilsugæslustöðvanna. Þeir taka á móti fólki sem kemur á heilsugæsluna veikt, slasað, til eftirlits vegna sjúkdóma eða til heilsuverndar; veita ferðamannabólusetningar, gefa sprautur, sýklalyf í æð, veita ráðgjöf og fræðslu svo eitthvað sé nefnt. Einnig hafa hjúkrunarfræðingar símatíma og sinna þannig símaráðgjöf.

Hjúkrunarfræðingar mennta sig fjögur ár í Háskóla til BS prófs og fjölmargir eru auk þess með framhaldsnám af einhverju tagi s.s. meistarnám eða diplómanám. Að loknu meistarnámi geta hjúkrunarfræðingar hlotið réttindi sem sérfræðingar í hjúkrun. Nokkrir hjúkrunarfræðingar á Íslandi hafa nú þegar sérfræðirétttindi í heilsugæsluhjúkrun. Hjúkrunarfræðingar fá yfirgipsmikla menntun í BS námi sínu. Þeir læra um flest það sem tengist heilsufari mannsins jafnt líkamlegu, andlegu sem félagslegu. Af þessu má sjá að hjúkrunarfræðingar hafa góðan grunn til að starfa við móttöku á heilsugæslustöðvum.

Í löndum eins og t.d. Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð geta hjúkrunarfræðingar menntað sig til enn meiri ábyrgðar og sjálfstæðari vinnubragða en hér á landi. Þar hafa þessir hjúkrunarfræðingar leyfi til að greina algenga sjúkdóma, ávísa lyfjum og að panta rannsóknir. Það hefur verið sýnt fram á að þeir veita framúrskarandi þjónustu og að fólk sem þiggur þjónustuna eru ánægt með hana. Hér á landi eru nú þegar nokkrir hjúkrunarfræðingar með slíka sérmenntun og tilbúnir til að nýta krafta sína í þágu heilsugæslunnar. Til þess að hjúkrunarfræðingar geti skrifað lyfseðla þarf lagabreytingar og skorum við á þingmenn að huga að slíkum lagabreytingum.

Heilsugæsluhjúkrunarfræðingar fagna umræðu um málefni heilsugæslunnar á alþingi enda er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að leggja góðan grunn fyrir heilsugæslu framtíðarinnar. Mikilvægt er að heilsugæsluhjúkrunarfræðingar taki þátt í að þróa heilsugæsluna og býður því fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga fram krafta sína til að móta langtímastefnu heilsugæslunnar.


















Skoðun

Sjá meira


×