Handbolti

Sverre: Verður erfiðasti leikur riðilsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Sverre Jakobsson tekur hér á Króatanum Igor Vori.
Sverre Jakobsson tekur hér á Króatanum Igor Vori. Mynd/AFP
Varnartröllið Sverre Jakobsson á von á afar erfiðum leik gegn Noregi í síðustu umferð milliriðlakeppninnar á EM í Austurríki í dag.

Leikurinn hefst klukkan 15.00 en með sigri tryggir Ísland sér sæti í undanúrslitum mótsins.

„Þennan leik þurfum við að forvinna mjög vel," sagði Sverre í samtali við Vísi. „Við munum þurfa að kljást við tvo mjög erfiða línumenn - þá [Frank] Löke og [Bjarte] Myrhol. Þeir eru stoð og stytta þessa liðs ásamt [Steinar] Ege í markinu."

„Við þurfum að passa okkur vel á línumönnunum og megum ekki berjast of mikið við þá. Stundum þurfum við að leyfa þeim að fara."

„En það eru margir frábærir leikmenn fyrir utan líka. [Erlend] Marmelund er stórhættuleg skytta og þeir [Kjetil] Strand og [Börge] Lund líka. Svo má ekki gleyma [Kristian] Kjelling. Allt eru þetta leikmenn sem geta skotið úr öllum mögulegum stöðum."

„Ég á því von á gríðarlega erfiðum leik - líklega þeim erfiðasta í milliriðlinum. Mikilvægi leiksins er mikið og mér finnst Norðmenn spila hraðari leik en Króatar og eru ekki með síðri leikmenn. Til að mynda finnst mér liðsheildin hjá Norðmönnum vera sterkari en hjá Króötum."

„Norðmenn munu ekkert gefa eftir. Það er ljóst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×