Erlent

Brjálaður Brown öskrar og sparkar í húsgögn

Óli Tynes skrifar
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.

Fyrrverandi spunameistari í Downing Stræti 10 segir að Gordon Brown fái æðisköst þegar illa gengur. Hann öskri á starfsfólkið og sparki jafnvel í húsgögn í bræði sinni.

Lance Price talaði við tugi fyrrverandi og núverandi starfsmanna í Downing stræti meðan hann var að skrifa bókina; Where Power Lies.

Þessir starfsmenn bera forsætisráðherranum ekki vel söguna. Þeir segja að í ráðherrabústaðnum sé hrein ógnarstjórn.

Einn viðmælendanna segir að framkoma Browns gagnvart yngra starfsfólki sé ófyrirgefanleg. Hann oti fingri framan í það, öskri, kasti skjalabunkum í gólfið og sparki í húsgögn.

Annar viðmælandi segir að ráðherrann aumlegur maður sem leggist í sjálfsmeðaumkvun ef eitthvað fer úrskeiðis.

Þriðji viðmælandinn segir að hann sé sálfræðilega og tilfinningalega ófær um að veita nokkra forystu.

Lance Price var aðstoðarmaður Alastairs Campbells á árunum 1998-2000 en Campbell var þá spunameistari Tonys Blair.

Eins og við var að búast segja talsmenn í Downing stræti að Price fari með tómt fleipur.

Frásögn hans er þó sögð á sömu nótum og er að finna í bók Andrews Rawnsleys sem er stjórnmálafréttaritari. Sú bók kemur út í næsta mánuði.

Í henni er sagt að Brown hafi slegið hátt settan ráðgjafa þegar sá var eitthvað fyrir honum þegar hann var að flýta sér í móttöku í Downing stræti.

Því er einnig haldið fram að hann hafi rifið einkaritara upp úr stól sínum þegar hann var að lesa henni fyrir bréf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×