Erlent

Er sólin að vakna á nýjan leik?

Óli Tynes skrifar
Neðarlega til vinstri á myndinni má sjá öflugasta sólgos sem orðið hefur í tvö ár.
Neðarlega til vinstri á myndinni má sjá öflugasta sólgos sem orðið hefur í tvö ár. Mynd/NASA

Vísindamenn velta nú fyrir sér hvort sólin sé að vakna til lífs á nýjan leik eftir tveggja ára rólegheita tímabil. Á þessum tveim árum hefur verið einstaklega lítið um sólbletti og sólgos eftir mikla virkni undanfarna áratugi.

Ýmsir halda því fram að virkni sólar á hverjum tíma hafi mikil áhrif á loftslag á jörðinni. Bent er á að milli áranna 1645 og 1715 hafi sólblettir horfið að mestu leyti. Þá var mesta kuldatímabil litlu ísaldarinnar svokölluðu.

Aðrir segja að algerlega sé ósannað að nokkuð samhengi sé þar á milli. Hvað sem því líður virðist sem virkni sólarinnar geti nú verið að aukast eitthvað.

Norska blaðið Aftenposten segir að á síðustu fjórum vikum hafi sést þónokkrir sólblettir og einnig nokkur minniháttar sólgos.

Í dag hafi svo sést miðlungsstórt sólgos. Aftenposten hefur eftir Pål Brekke við norsku geimrannsóknastöðina að þótt þetta hafi ekki verið neitt stórbrotið gos sé það hið öflugasta sem sést hafi í tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×