Erlent

Má stunda lækningar þrátt fyrir ákæru um manndráp

Dr. Conrad Murray má stunda lækningar þrátt fyrir að yfirvöld telji að hann hafi orðið valdur af dauða popparans.
Dr. Conrad Murray má stunda lækningar þrátt fyrir að yfirvöld telji að hann hafi orðið valdur af dauða popparans. Mynd/AP
Lækni Michaels Jackson sem ákærður var fyrir manndráp af gáleysi vegna andláts popparans er frjálst að stunda lækningar.

Michael Jackson lést á heimili sínu í júní í fyrra fimmtugur að aldri. Réttarlæknir komst að þeirri niðurstöðu að um manndráp hafi verið að ræða sem rekja mátti til mikillar lyfjagjafar. Fjöldi lyfja fundust í líkama Jacksons en talið er að hið sterka deyfilyf Propofol hafi átt þar stærstan þátt.

Í byrjun febrúar var læknirinn Conrad Murray ákærður fyrir manndráp af gáleysi, en Murray hefur ávallt haldið því fram að hann hafi ekki skrifað upp á nein lyf sem gætu hafa dregið Jackson til dauða.

Saksóknari í Los Angeles hefur lagt áherslu á að Murray starfi ekki sem læknir á meðan mál hans er enn til umfjöllunar hjá dómstólum. Dómari féllst aftur á móti í gær á rök lögfræðinga Murray sem sögðu að hann yrði að fá að stunda lækningar til að geta staðið undir kostnaði við málaferlin en þeim verður framhaldið 23. ágúst.

Foreldrar Michael Jackson voru í dómsalnum í gær ásamt nokkrum systkinum söngvarans. Þau vildu ekki tjá sig um niðurstöðuna þegar fjölmiðlar leituðu eftir viðbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×