Erlent

Aftur byggt á Vesturbakkanum

Óli Tynes skrifar

Benjamín Netanyahu lagði bann við frekari húsbyggingum á Vesturbakkanum fyrir tíu mánuðum.

Það var gert til að liðka fyrir því að palestínumenn fengjust til þess að hefja friðarviðræður á nýjan leik.

Palestínumenn hafa nú komið til viðræðnanna en bannið við húsbyggingum rennur út 26 september.

Netanyahu hefur nú lýst því yfir að bannið verði ekki framlengt þótt ýmsar takmarkanir verði á framkvæmdum.

Forsætisráðherrann segir að palestínumenn og gyðingar hafi báðir verið að reisa sér heimili á þessu svæði í fimmtíu ár.

Palestínumenn vilja fá allan Vesturbakkann fyrir sjálfstætt ríki sitt. Mahmoud Abbas forseti þeirra hefur margsinnis lýst því yfir að ef gyðingar hætti ekki framkvæmdum á Vesturbakkanum muni hann ekki taka frekari þátt í friðarviðræðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×