Erlent

Konur verða sterkara kynið eftir fimmtugt

Danskir vísindamenn hafa komist að því að eftir fimmtugt eru konur orðnar að sterkara kyninu en ekki karlar.

Blaðið Jyllands Posten greinir frá málinu en þar segir að vísindamenn hafa rætt það árum saman hvort karlmenn fari í gegnum breytingarskeið eins og konur á miðjum aldri.

Danskir vísindamenn telja sig hafa fundið svarið en það byggir á því að eftir fimmtugt minnkar verulega magnið af testeróni, eða karlhormónum, hjá körlum sem gerir þá mun viðkvæmari fyrir sjúkdómum en konur. Þetta hefur í för með sér að dánartíðni hjá körlum er töluvert meir en hjá konum frá og með fimmtugsaldrinum.

Í rannsókn sem náði til 40.000 Dana frá árinu 2002 kemur fram að líffræðilega séð breytast karlar frá því að vera sterkara kynið og yfir í að vera það veikara um fimmtugt.

Tom Skyhöj Olsen yfirlæknir á Frederiksberg spítalanum segir að sjá megi að eitthvað gerist hjá körlum eftir fimmtugsaldurinn sem veiki þá líkamlega séð og kalla megi þá þróun breytingarskeið karla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×