Erlent

Kjarnorkuver áfram opin í Svíþjóð

Frá sænska þinginu. Frumvarpið var samþykkt naumlega í nótt með 174 atkvæðum gegn 172.
Frá sænska þinginu. Frumvarpið var samþykkt naumlega í nótt með 174 atkvæðum gegn 172.
Sænska þingið samþykkti í nótt að heimila endurnýjun kjarnakljúfa í kjarnorkuverum í landinu. Um kúvendingu er að ræða.

Eftir langa umræðu var frumvarpið samþykkt með naumum meirihluta eða 174 atkvæðum gegn 172. Þingmenn vinstri- og miðjuflokkanna greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Um stefnubreytingu er að ræða því árið 1980 samþykktu Svíar í þjóðaratkvæðagreiðslu að síðasta kjarnorkuverinu yrði lokað árið 2010. Sá frestur hafði þó verið framlengdur.

Í dag eru 10 kjarnakljúfar í þremur kjarnorkuverum í landinu og er þeim heimilt að starfa áfram. Rúmlega 40% af heildarraforkunotkun Svía er framleitt með kjarnorku.

Umhverfisverndarsamtökin Greenpeace gagnrýna lagasetninguna og segja hana óábyrga. Samtökin segja ennfremur að meirihluti þingmanna geri sér ekki grein fyrir því hversu mikil hætta stafar af starfsemi kjarnorkuvera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×