Erlent

Brúðkaupsæði í Svíþjóð

Viktoría, Silvía og Daníel. Mynd/AP
Viktoría, Silvía og Daníel. Mynd/AP
Sænska þjóðin bíður með öndina í hálsinum eftir morgundeginum, en þá gengur einkaþjálfarinn Daníel Westling að eiga heitkonu sína, Viktoríu Krónprinsessu. Íslensku forsetahjónin héldu utan til brúðkaupsins í morgun.

Fréttir og myndasyrpur af brúðhjónunum prýða nú forsíður flestra sænskra vefmiðla. Aftonbladet hefur meira að segja opnað sérstakan vef tileinkaðan brúðkaupinu þar sem talið er niður í atburðinn, en nú eru aðeins tæpir 28 tímar í að parið segi já.

Viktoría, sem er 32 ára, kynntist Westling þegar hann var einkaþjálfari prinsessunnar árið 2002, en hann er fjórum árum eldri en hún. Parið fékk leyfi Karls 16. Gústafs Svíakonungs og sænsku ríkisstjórnarinnar til að trúlofast í febrúar í fyrra.

Í eina tíð gátu erfingjar krónunnar ekki gifst öðrum en konungbornum, en sá siður lagðist af með brúðkaupi Svíakonungs og túlksins Silvíu Sommerlath, sem í dag er drottning, árið 1976. Viktoría þarf því ekki að afsala sér krúnunni vegna brúðkaupsins og hlýtur Westling titilinn prins að brúðkaupinu loknu.

Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Mousaieff forsetahjón héldu í morgun til Stokkhólms þar sem þau munu samfagna sænsku konungsfjölskyldunni. Að lokinni vígsluathöfninni á morgun verður boðið til hátíðarkvöldverðar í sænsku konungshöllinni. Fjöldinn allur af þjóðhöfðingjum og kóngafólki kemur til með að sækja hátíðina, en alls er fleiri en 500 manns boðið til kvöldverðarins.

Ekkert er til sparað þrátt fyrir að deilur hafi kviknað um íburðinn, en kostnaður sænska ríkisins vegna brúðkaupsins jafngildir um 330 milljónum íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Brúðkaupið kostar um 330 milljónir

Tignir gestir streyma til Stokkhólms þar sem haldið verður konunglegt brúðkaup á morgun. Viktoría krónprinsessa og einkaþjálfari hennar, Daniel Westling, hyggjast ganga í það heilaga í Dómkirkjunni, sem nýbúið er að gera lagfæringar á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×