Skoðun

Skref í átt að betri heilsu

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir skrifar
Síðastliðna daga hafa transfitusýrur í matvælum og áhrif þeirra á heilsu neytenda verið mikið til umræðu í kjölfar mælinga danska læknisins Steen Stender á magni transfitusýra í matvælum hérlendis. Að öðrum ólöstuðum er líklega hægt að segja að Stender sé sá sem hvað ötulast hefur unnið að því að vekja almenning til vitundar um áhrif neyslu á transfitusýrum á heilsu manna. Í byrjun tíunda áratugarins komu fyrstu upplýsingar um skaðleg áhrif transfitusýra á heilsu fólks og Stender, þá formaður manneldisráðs í Danmörku, beitti sér fyrir því að transfitusýrur væru bannaðar í matvælum þar í landi, með lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi. Það var þó ekki fyrr en áratug síðar að markmiðið náðist og Danir settu reglugerð sem bannaði matvæli sem innihéldu hærra magn af transfitusýrum en sem nemur tveimur grömmum í hverjum 100 grömmum af fitu, þá fyrstir þjóða.

Transfitusýrur eru ákveðin gerð harðrar/hertrar fitu sem getur verið í matvælum frá náttúrunnar hendi en mun algengara er að transfitusýrur hafi myndast við meðhöndlun eða vinnslu fitu eða við mög háan hita í steikingu. Algengast er að transfitusýrur myndist þegar ómettuð fita er hert að hluta, til að hún henti betur til matvælaiðnaðar. Ástæða þess að þessi herta fita varð svo vinsæl í matvælaiðnaðinum var sú að þær eru einfaldar og ódýrar í framleiðslu og notkun, gefa matvælum eftirsóknarvert bragð og útlit og endast lengi. Sem dæmi má nefna að þessi fita hentaði vel til djúpsteikingar þar sem hægt var að nota sömu fituna oft áður en henni var fargað.

Það eru því helst matvæli s.s. djúpsteiktur skyndibiti, kex, kökur, örbylgjupopp o.s.frv. sem mest hætta er á að innihaldi óhóflegt magn af transfitusýrum og áhyggjuefni að þetta eru einmitt matvæli sem gjarnan eru vinsæl hjá yngri kynslóðinni.

Hér á landi hefur neysla á transfitusýrum minnkað til muna frá því að fyrst voru gerðar mælingar á slíku en þrátt fyrir það neyttu Íslendingar að meðaltali 3,5 g af transfitusýrum á dag, samkvæmt landskönnun 2002. Samsvaraði það um 1,4% af orkuinntöku en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setur sem viðmið að neysla á transfitusýrum sé minni en 1% af orkuinntöku og fari ekki yfir tvö grömm á dag.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla á transfitusýrum eykur líkur á hjarta og æðasjúkdómum meira en neysla annarrar harðrar fitu en við neyslu á transfitusýrum hækkar hlutfall óæskilegrar blóðfitu (slæmt kólesteról) og jafnframt lækkar hlutfall jákvæðrar blóðfitu (gott kólesteról). Talið er að fimm grömm af transfitusýrum geti aukið hættu á hjarta og æðasjúkdómum um 25%.

Eins og fram kemur hér að ofan voru Danir fyrstir til að banna transfitusýrur í matvælum en nú hafa fleiri fylgt í kjölfarið s.s. Sviss og Austurríki sem hafa einnig farið þessa leið. Ýmis fylki í Bandaríkjunum hafa sett reglur um transfitusýrur í matvælum. New York og Kalifornía hafa gengið lengst og bannað að matvæli sem innihalda transfitusýrur séu notuð við matseld á veitingastöðum. Aukinn þrýstingur er af hálfu neytenda víða um heim að ráðamenn grípi til sams konar aðgerða en þar takast væntanlega á sjónarmið neytenda og hagsmunasjónarmið iðnaðarins sem telja slíkt íþyngjandi. Það er þó svo að í flestum tilfellum er hægt að skipta fitu sem inniheldur transfitusýrur út fyrir aðra æskilegri fitu eins og berlega sést hjá þeim matvælaframleiðendum sem nú þegar hafa brugðist við og bjóða transfitu-frí matvæli.

Það má því segja að barátta Stender og samstarfsmanna hans fyrir betri lýðheilsu sé farin að skila sér víða og á þar líklega vel við hin margnotaða líking um litlu þúfuna og þunga hlassið. Það ber því að fagna því að hér á landi skuli nú hafa verið tekið af skarið varðandi þetta mál og skref tekið í átt til betri lýðheilsu.



Skoðun

Sjá meira


×