Skoðun

Áhrif ofþyngdar á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu

Elín Arna Gunnarsdóttir og Guðrún I. Gunnlaugsdóttir skrifar

Íslendingar eru á meðal feitustu þjóða í heimi. Þessar fréttir hafa borist okkur í gegnum fjölmiðla upp á síðkastið. Þetta er staðreynd og það er ástæða til að hafa af þessu miklar áhyggjur. Þegar talað er um offitu er gjarnan miðað við að svokallaður líkamsþyngdarstuðull (LÞS) sé kominn yfir 30. LÞS er mælikvarði á þyngd miðað við hæð (kg/m²) og er einn af leiðbeinandi þáttum þegar metið er hvort einstaklingur sé í yfirþyngd.

Rannsóknir Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) benda til að þeir sem eru með LÞS yfir 25 hafi að öllu jöfnu hærri dánartíðni og séu líklegri til að þjást af ýmsum sjúkdómum. Samfara þessari þróun hefur ofþyngd og offita meðal kvenna á barneignaraldri aukist og er orðin slík að mun fleiri konur í dag hefja meðgöngu of þungar. Niðurstöður rannsókna sýna að ofþyngd og offita móður í upphafi meðgöngu hefur neikvæð áhrif á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu, bæði móður og barn. Einnig ef þyngdaraukning á meðgöngu er umfram það sem mælt er með miðað við LÞS.

Flestum konum er gleðiefni að verða barnshafandi og fara margar þeirra í ómskoðun á 12. og 20. viku meðgöngu. Mikil fitusöfnun á kvið getur gert ómskoðun erfiðari og þar af leiðandi getur verið vandkvæðum bundið að greina fósturgalla. Með aukinni þyngd aukast líkur á ýmsum fæðingargöllum og þessum hópi kvenna er hættara við fósturláti. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum offitu á meðgöngu. Niðurstöður sýna að konum með LÞS>30 er hættara við að fá meðgöngusykursýki, of háan blóðþrýsting, meðgöngueitrun, þvagfærasýkingar og blóðtappa í fætur.

Áhrif á fæðingu

Offita getur haft mikil áhrif á fæðinguna. Hreyfanleiki kvenna með LÞS>30 er minni í fæðingu en þeirra sem eru í kjörþyngd, en sá þáttur er mikilvægur í fæðingu og getur haft áhrif á gang fæðingar. Erfiðara er að hlusta á hjartslátt barns með utanáliggjandi hjartsláttarnema ef mikil fitusöfnun er á kvið. Líkur á að koma þurfi fæðingu af stað nær tvöfaldast hjá konum í ofþyngd, m.a. vegna aukinnar tíðni á háþrýstingi og meðgöngusykursýki. Konur með LÞS>30 eru líklegri til að fæða barn með keisaraskurði en konur í kjörþyngd. Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins birtist niðurstaða rannsóknar sem þrír læknar á Landspítala unnu hér á landi til að kanna tíðni fylgikvilla á meðgöngu, í fæðingu og hjá nýburum kvenna í kjörþyngd, of þungra og of feitra við upphaf meðgöngu. Helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar sýna að konur með LÞS>30 eru líklegri til að hafa langvinnan háþrýsting fyrir þungun, fá meðgönguháþrýsting, meðgöngueitrun, meðgöngusykursýki og einkenni frá stoðkerfi. Enn fremur aukast líkur á að framkalla þurfi fæðingu og að fæða með keisaraskurði, bæði bráða- og valkeisaraskurði, samanborið við mæður í kjörþyngd og ofþyngd. Niðurstöður sýna einnig að nýburar kvenna með LÞS>30 eru þyngri og með stærra höfuð. Fæðing þungbura hefur í för með sér aukna hættu á skaða hjá barni í fæðingu, sem eykur líkur á dvöl á vökudeild eftir fæðingu.

Erlendar rannsóknir hafa einnig sýnt að konur með LÞS>30 eru lengur í fæðingu, sem getur leitt til tíðari innri skoðana og þar með aukið líkur á sýkingum. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að sýkingar eru algengari meðal kvenna með LÞS>30 s.s. þvagfærasýkingar, sýkingar í skurðsári eftir keisaraskurð, móðurlífsbólgur og sýkingar í rifum í fæðingarvegi.

Ofþyngd og offita móður getur haft neikvæð áhrif á sængurleguna. Konur í yfirþyngd eiga frekar í erfiðleikum með brjóstagjöf en konur í kjörþyngd. Þær eru líklegri til að eiga í erfiðleikum með að leggja barnið á brjóst og rannsóknir sýna að mjólkin er lengur að koma í brjóst þeirra en kvenna í kjörþyngd. Þessar konur þurfa því almennt meiri stuðning og fræðslu í gegnum brjóstagjafarferlið, því yfirþyngd getur haft neikvæð áhrif á lengd brjóstagjafar. Þessar konur er einnig líklegri til að finna fyrir einkennum þunglyndis eftir barnsburð en konur sem eru í kjörþyngd.

Hvað er til ráða?

Meginreglan er sú að því þyngri sem kona er við upphaf meðgöngu, þeim mun minna ætti hún að þyngjast á meðgöngunni. Samkvæmt viðmiðunarmörkum IOM (Institute of Medicine) um þyngdaraukningu á meðgöngu er mælt með að konur með LÞS 18,5-24,9 þyngist um 11,5-16 kg, konur með LÞS 25-29,9 ekki um meira en 7-11,5 kg og að konur með LÞS>30 þyngist ekki meira en 6 kg. Ekkert segir að konur í ofþyngd þurfi að þyngjast á meðgöngu, svo framarlega sem þær borða rétt samsetta og næringarríka fæðu.

Meðganga er ekki rétti tíminn til að fara í megrun því það getur skaðað vöxt og þroska barnsins en konur ættu t.d. að sneiða alveg hjá sælgæti, sætabrauði og gosdrykkjum.

Reglubundin hreyfing er mikilvægur þáttur í heilsusamlegu líferni, líka á meðgöngu. Mælt er með að minnsta kosti 30 mínútna hreyfingu á dag.

Ljósmæður í meðgönguvernd ættu að hvetja konur á meðgöngu og styðja þær í að halda sig innan þeirra viðmiðunarmarka sem mælt er með um þyngdaraukningu á meðgöngu. Þær þurfa að styðja konur í að taka upp heilbrigðari lífsstíl til að fyrirbyggja of mikla þyngdaraukningu. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum Landlæknis um meðgönguvernd er ráðlagt að fylgjast með þyngd reglubundið ef LÞS gefur tilefni til.

Við teljum að þessi hópur kvenna þurfi þéttara eftirlit og meiri stuðning en almennt er veittur í meðgönguvernd. Á meðgöngunni gefst gott tækifæri til að endurskoða matarvenjur og lífshætti.

Hornsteinn meðferðarinnar er hvatningarviðtal snemma á meðgöngu, þar sem leitast er við að hafa áhrif á áhuga og vilja konunnar til að breyta heilsutengdri hegðun, taka upp hollari lífsstíl og sækja sér upplýsingar eftir þörfum. Mikilvægt er að konur á barneignaraldri leggi sig fram við að stunda heilbrigt líferni og reglulega hreyfingu. Þær ættu að vera í kjörþyngd eða sem næst henni þegar þær hefja meðgöngu. Með því aukast líkur á góðri heilsu móður og barns.

Það er mikilvægt að heilbrigðisvöld grípi inn í hér og nú til að sporna við þeim vágesti sem offitan er með aukinni fræðslu, forvörnum og stuðningi.








Skoðun

Sjá meira


×