Erlent

Talið að versti pabbi í heimi eigi 15 börn með 14 konum

Valur Grettisson skrifar
Keith Mcdonald er einstaklega frjósamur sjarmör sem ætlar þó að verða frekar þungur baggi fyrir breska skattgreiðendur.
Keith Mcdonald er einstaklega frjósamur sjarmör sem ætlar þó að verða frekar þungur baggi fyrir breska skattgreiðendur.

Talið er að hinn atvinnulausi Keith Macdonald eigi allt að fimmtán börn út um allar trissur í Bretlandi. Það var Daily mail sem upprunalega sagði frá málinu og Vísir greindi frá fyrr í mánuðinum, en Keith hefur hlotið hið vafasama viðurnefni „versti pabbi í heimi" í breskum fjölmiðlum.

Þá var sagt frá því að hann hefði eignast átta börn með átta konum á átta árum. Tvö börn til viðbótar voru þá á leiðinni en þau á hann með sitthvorri móðirinni.

Nýjustu upplýsingar af Keith eru hinsvegar þær að hann gæti átt allt að fimmtán börn með fjórtán konum.

Keith er 25 ára gamall og varð fyrst pabbi þegar hann var fimmtán ára gamall. Hann hefur verið iðinn við kolann síðan þá en hans helstu veiðilendur, ef svo má að orði komast, eru á strætó-stoppstöðvum.

Nú hefur einnig komið í ljós að þessi mikli sjarmör, sem Daily Mail reiknast til að kosti skattgreiðendur eina og hálfa milljón punda í uppihald á börnunum hans fram að lögaldri, hefur verið dæmdur fyrir að ganga í skrokk á einni barnsmóður sinni. Hún fæddi barnið hans sama ár og hann réðst á hana. Þá réðst hann á móður hennar að auki.

Keith var þá dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og þurfti að auki að sitja sérstakt námskeið til þess að læra að takast á við reiðina sína.

Þá hefur hann þurft að sitja inni eftir að hann rauf nálgunarbann gagnvart einni barnsmóður sinni, en tvær barnsmæður hans hafa fengið nálgunarbann á þennan unga frjósama mann.

Sjálfur segir Keith að hann hafi fyrst sofið hjá þegar hann var tíu ára gamall. Hann neitar ávallt að nota smokk við samfarir og hefur grobbað sig af því í viðtölum að hann hafi sofið hjá meira en 40 konum.


Tengdar fréttir

Versti pabbi í heimi: Tíu börn með tíu konum á tíu árum

Keith Mcdonald hefur fengið hið vafasama viðurnefni „versti pabbi í heimi“ í breskum fjölmiðlum en hann hefur eignast átta börn með átta konum. Tvö börn til viðbótar eru á leiðinni en þau á hann með sitthvorri móðirinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×