Skoðun

Bætur úr sjúkratryggingum eiga að vera skattfrjálsar

Stefán Einar Stefánsson skrifar
Frá árinu 1996 hafa tugþúsundir Íslendinga keypt svokallaðar sjúkdómatryggingar hjá íslenskum og erlendum tryggingafélögum. Eiga þær að tryggja fjárhagslega stöðu fólks þegar það greinist með alvarlega sjúkdóma á borð við krabbamein, MS, Alzheimer, hjartasjúkdóma o.fl. Hafa þessar tryggingar m.a. verið hugsaðar til þess að mæta tekjumissi, kostnaði sem fellur til vegna ferðalaga tengdum læknismeðferð og öðrum þeim útgjöldum sem fylgja langvinnum veikindum.

Eru bæturnar skattskyldar?

Þegar alvarlegra veikinda verður vart og einstaklingur öðlast rétt til bóta á grundvelli sjúkdómatryggingar, hefur sá háttur verið hafður á að umsamin tryggingarupphæð hefur verið greidd út í formi eingreiðslu. Hefur sá skilningur einnig verið almennur að tryggingar­fjárhæðin sé undanþegin lögum um tekjuskatt, rétt eins og greiðslur líftryggingarfjár, miskabætur, dánarbætur og bætur þær sem fólk hlýtur á grundvelli varanlegrar örorku. Nú hefur yfirskattanefnd hins vegar komist að þeirri niðurstöðu (úrskurður nr. 93 frá 2009) að bætur á grundvelli sjúkdómatrygginga, falli ekki í flokk fyrrnefndra bóta af þeim sökum að þær séu ekki sérstaklega tilgreindar í 2. tl. 28. gr. tekjuskattslaganna nr. 90 frá 2003. Hefur málinu verið vísað til dómstóla og innan skamms mun Hæstiréttur kveða upp úrskurð sinn í þessum efnum.

Hér skal ekki fullyrt hvort yfirskattanefnd hafi komist að lögfræðilega réttri niðurstöðu í málinu eða ekki. Sannarlega eru sjúkdómatryggingar ekki sérstaklega tilgreindar í fyrrnefndu lagaákvæði og af þeim sökum kann að vera að nefndin hafi á réttu að standa í úrskurði sínum. Það breytir ekki því að sá grunur læðist óhjákvæmilega að manni að þar hafi nefndin fremur komið auga á galla í lögum um tekjuskatt, fremur en að hún hafi hent reiður á vilja löggjafans í þessum efnum.



Réttlætissjónarmið

Alþingi Íslendinga hefur mótað og sett lög um það hvaða tekjur skuli falla undir lög um tekjuskatt. Það hefur verið talið réttlætismál að dánarbætur, bætur vegna varanlegrar örorku og miskabætur, séu undanþegnar tekjuskatti þegar um eingreiðslu á þeim er að ræða. Vísar það fyrst og fremst til þeirrar staðreyndar að bætur af þessu tagi koma til þegar fólk hefur orðið fyrir alvarlegum áföllum eða þungbærum missi. Bætur sem koma til vegna slíkra auðnubrigða eru að öllum líkindum ekki tekjur sem ríkis­valdinu ætti að hugnast að gera sér mat úr. Eðlilegast er að bætur af því tagi gangi óskertar til þeirra sem fyrir áfallinu hafa orðið, til þess að létta undir og gera lífið bærilegra en ella hefði orðið. Oft er haft á orði að þeir skuli skattinn greiða sem aflögu eru færir en það væru sönn öfugmæli að halda því fram að mikið veikt fólk fylli þann flokk. Sjúkdómatryggingum er í raun aðeins ætlað að tryggja að líkamlegt áfall fólks verði því ekki einnig fjárhagslegt.

Sé það almennur skilningur fólksins í landinu að bætur vegna miska, slysa eða dauðsfalla skuli undanþegnar tekjuskatti, er ekki óeðlilegt að sami mælikvarði gildi um sjúkdóma­tryggingar og útgreiðslur þeirra. Af þeim sökum er mikilvægt að löggjafinn bregðist hið snarasta við og bæti hugtakinu „sjúkdómatrygging" við fyrrgreint lagaákvæði. Aðeins með því getur Alþingi staðið vörð um hagsmuni þeirra einstaklinga sem því miður horfast í augu við að sú trygging sem þeir vonuðust til að aldrei kæmi til með að nýtast þeim, geti orðið þeim haldreipi í erfiðum aðstæðum.






Skoðun

Sjá meira


×