Viðskipti innlent

Nemendagarðar greiði tæpar 100 milljónir í leigu

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Nemendagarðarnir á Bifröst þurfa að greiða leigufélaginu Selfelli tæpar eitthundrað milljónir króna fyrir ógreidda leigu. Uppboð á íbúðunum var fyrirhugað í næstu viku.

Leigufélagið Selfell gerði í nóvember árið 2006 leigusamning við nemendagarða Háskólans á Bifröst á 48 íbúðum fyrir nemendur á leigulóð við háskólann. Háskólinn á 40% hlut í Selfelli en verktakafyrirtækið Fellsás, sem sá um byggingu íbúðanna, á 60%.

Upp úr miðju ári 2007 reis ágreiningur um efndir leigusamningsins, m.a. afhendingu húsnæðis og annmarka á frágangi íbúðanna. Upp frá því reyndist erfitt fyrir leigufélagið að innheimta leiguna frá nemendagörðum en það var leyst með samkomulagi í maí 2008. Um hálfu ári síðar hættu nemendagarðarnir að greiða leigu , þrátt fyrir að íbúðirnar væru í útleigu til nemenda.

Selfell stefndi nemendagörðum sem aftur stefndi Selfelli. Í gær var svo kveðinn upp úrskurður í héraðsdómi Vesturlands þar sem nemendagörðum var gert skylt að greiða Selfelli húsaleiguna.

Jón Pálsson, stjórnarformaður Selfells segir málið hafa haft slæm áhrif á leigufélagið þar hagnaðarsjónarmið hafi ekki verið forsenda stofnunar þess.

Ekki náðist í Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×