Viðskipti innlent

TULIP í Danmörku velur Plastprent sem birgja

Elsta vörumerki Danmerkur og eitt af stærri vörumerkjum í Evrópu á neytenda- og veitingamarkaði, TULIP, hefur valið Plastprent sem birgja. Greint er frá þessu á vefsíðu Samtaka iðnaðarins.

„Við höfum verið að vinna í þessum samningum í tvö ár," segir Ólafur Steinarsson framkvæmdastjóri Plastprents hf. „Í síðustu viku fór fyrsta framleiðslan í okkar umbúðir og gekk allt eins og í sögu. Þetta er samningur til 2012 sem var undirritaður nýverið og er verðmæti hans á annað hundrað milljónir króna. Heildarmatvælaframleiðsla TULIP á ársgrundvelli er um 171.000 tonn þannig að ef vel gengur horfum við fram á frekari vöxt fyrirtækisins sem birgi innan þessa stóra félags."

Ólafur segir að það sé hægara sagt en gert að komast inn hjá stórum matvælaframleiðendum í Evrópu en Plastprent hóf viðræður við TULIP í Danmörku fyrir um tveimur árum síðan.

„Þá þróuðum við filmu sem við sendum í prufukeyrslu og gekk sérlega vel. Í framhaldi af því tókum við þátt í stóru útboði og náðum inn nokkrum vörulínum í samkeppni við aðra aðila. Þá var gott að vera búinn að komast inn sem viðurkenndur birgi," segir Ólafur. „Eins og við þekkjum, þá standa Danir vel að vígi í matvælaframleiðslu, ekki síst í vörumerkjastjórnun og fyrir okkur hefur það mikla þýðingu að komast inn hjá TULIP.

TULIP hefur orðið tákn fyrir hágæðakjötframleiðslu og er þekkt fyrir útflutning á gæðamatvælum um alla Evrópu, en fyrirtækið selur einnig til Rússlands og á Japansmarkað. TULIP er með sterk eigin vörumerki eins og TULIP, Majesty, Steff Holberg, GØL, DAK, Oldenburger og Ugglarp.

„Okkar samningur er um vörur fyrir veitingamarkaðinn en í heildina stendur þessi markaður fyrir 23% af heildarframleiðslu TULIP. Þessir viðskiptavinir gera sérstakar kröfur um upplýsingaskyldu, pökkunarstærðir og hagkvæmar umbúðir," segir Ólafur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×